138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé miklum vafa undirorpið hvort hættan hafi verið fyrirsjáanleg. Og ekki síður, sem er annað skilyrði þess að menn grípi til þessa úrræðis, hvort ráðherrarnir hafi haft einhver úrræði til þess að bregðast við þessari hættu og draga úr henni. Það er ekki síður mikilvægt að menn sýni fram á það. Ég fór yfir það áðan að mér þætti skorta á að menn bentu á dæmin.

Þetta er meira eða minna allt saman eftiráspeki og það er sjálfsagt að taka undir og draga lærdóm af því sem segir í rannsóknarskýrslunni um það að menn hefðu átt að hafa meiri formfestu á hlutunum, að menn hefðu átt að bregðast við með öðrum hætti og draga lærdóm af því.

En við erum ekki að ræða um það hér, við erum ekki að tala um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Við erum að ræða tillögu um að færa refsiábyrgð yfir þessa ráðherra. Það er önnur umræða (Forseti hringir.) og menn þurfa að gera greinarmun þar á milli.