138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:44]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um að fjórir fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á árunum 2007–2009 verði ákærðir fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð sem varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, en til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga sem kveður á um að opinber starfsmaður sem sekur gerist um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem Alþingi stendur frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu til tillagna um að ráðherrar verði dregnir fyrir landsdóm á grundvelli laga um ráðherraábyrgð. Grundvöllurinn er lagður í 14. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“

Ég verð að játa að ég hef haft miklar efasemdir um að það sé heppilegt fyrirkomulag að Alþingi sinni hlutverki ákæruvalds í málum sem þessum þar sem þingmenn taki ákvörðun um það hvort höfða skuli mál gegn eftir atvikum pólitískum samherjum eða andstæðingum. Ég tel að það stríði ekki aðeins gegn grundvallarforsendum stjórnskipunarinnar um þrígreiningu ríkisvaldsins, heldur stangist jafnframt á við þær kröfur sem við gerum um faglega og hlutlæga rannsókn málsatvika og réttláta málsmeðferð.

Ég tel sömuleiðis að Alþingi hafi ekki valið heppilegustu leiðina með því að fela nefnd þingmanna það hlutverk að leggja fram tillögur um hvort höfða skuli mál á hendur einstökum ráðherrum. Farsælla hefði verið að fela nefnd óháðra sérfræðinga það hlutverk að komast að niðurstöðu um refsiábyrgð einstakra ráðherra. Sú niðurstaða hefði síðan orðið efni þingsályktunartillögu sem Alþingi hefði samþykkt eða synjað. Sú tilhögun hefði að mínum dómi verið mun líklegri til að skapa sátt um niðurstöðuna en tillögurnar sem bíða afgreiðslu þingsins. Skýr og ótvíræð niðurstaða óháðrar sérfræðinefndar um refsiábyrgð einstakra ráðherra hefði verið trúverðugri forsenda fyrir málshöfðun fyrir landsdómi en niðurstaðan sem blasir við, sérstaklega þar sem þingmannanefndin hefur klofnað í þrjá hluta í afstöðu sinni.

Það er dapurlegt að sjá hvernig þingmannanefndin virðist utan frá séð klofna eftir flokkslínum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja hlífa sínum ráðherrum og reyndar einnig ráðherrum Samfylkingarinnar við málsókn. Fulltrúar flokkanna sem ekki voru í ríkisstjórn 2007–2009 vilja ákæra alla ráðherrana fjóra. Fulltrúar Samfylkingarinnar skera sig úr því þeir leggja til að annar ráðherra Samfylkingarinnar verði ákærður en hinn ekki. Hins vegar vekur athygli að fulltrúar Samfylkingarinnar snúa við niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis varðandi ábyrgð ráðherra flokksins.

Þar komum við að því sem er athyglisverðast í niðurstöðum þingmannanefndarinnar. Enginn hinna níu nefndarmanna tekur undir niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis hvað varðar ábyrgð einstakra ráðherra. Enginn. Þetta vekur sérstaka athygli í ljósi þess að þingmannanefndin lét ekki framkvæma sjálfstæða rannsókn á málsatvikum og þar með mögulegum sakargiftum. Hún byggist fyrst og fremst á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og síðan andmælabréfum sem bárust frá ráðherrum. Það hefur þegar komið fram að einstökum ráðherrum, sem lagt er til að verði ákærðir, var ekki gefinn kostur á því að bregðast við tilteknum ákæruatriðum.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á það að með þessum orðum mínum er ég ekki að kasta rýrð á störf þingmannanefndarinnar. Ég dreg ekki í efa og raunar veit að einstakir nefndarmenn unnu sín störf af heilindum og eftir bestu getu en ég tel að tilraunin sem að sönnu er á ábyrgð þingsins hafi mistekist. Þingheimur hefði átt að draga þá ályktun áður en lagt var í þessa vegferð að það væri óraunhæft að ætla níu þingmönnum úr fimm stjórnmálaflokkum að komast að sameiginlegri niðurstöðu um ábyrgð flokksfélaga þeirra eða pólitískra andstæðinga. Í fullkomnum heimi hefðu menn átt að hefja sig upp yfir flokkshagsmuni en þríklofin nefnd bendir til þess að þær væntingar hafi verið óraunhæfar.

Virðulegi forseti. Ég legg sérstaka áherslu á mikilvægi þess að við náum sátt um niðurstöðu þeirrar miklu vinnu sem hófst með skipan rannsóknarnefndar Alþingis fyrir tæpum tveimur árum. Þetta ferli er sársaukafullt fyrir marga eins og öll sjálfskoðun og sjálfsgagnrýni er. Það er ekki hægt að leggja of mikla áherslu á mikilvægi þess að niðurstaðan sem við fáum og komumst að á endanum verði sú sem þjóðin metur að sé réttlát, sanngjörn og hlutlæg. Því miður er það niðurstaða mín að þær tillögur sem nú liggja fyrir þinginu um ráðherraábyrgð uppfylli ekki þessi skilyrði. Skýringarinnar er að hluta til að leita í gallaðri löggjöf um ráðherraábyrgð.

Í 14. gr. þeirra laga er svokallað fyrningarákvæði sem segir efnislega að ekki sé hægt að höfða mál á hendur ráðherra ef liðin eru þrjú ár eða meira frá því brot var framið. Í því tilviki sem hér um ræðir, þ.e. ábyrgð á orsökum bankahrunsins, er því ljóst að enginn ráðherra sem sat í ríkisstjórn fram til ársins 2007 verður dreginn fyrir landsdóm vegna mistaka eða vanrækslu sem leitt hafi til hrunsins. Þetta atriði er sérstaklega þýðingarmikið þegar höfð er í huga sú meginniðurstaða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hefðu þurft að grípa til aðgerða í síðasta lagi árið 2006 til þess að eiga möguleika á að koma í veg fyrir fall bankanna. Í þessu liggur alvarlegasta þversögnin í þeim málatilbúnaði sem við þurfum að taka afstöðu til. Ef marka má skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis liggur stjórnsýsluleg ábyrgð á bankahruninu hjá ráðherrum sem ekki er hægt að draga fyrir landsdóm vegna fyrningarákvæða í ráðherraábyrgðarlögunum. Er það boðleg niðurstaða fyrir þing og þjóð að láta slíkar formreglur ráða niðurstöðu þeirrar miklu og vönduðu vinnu sem rannsóknarnefnd Alþingis og þingmannanefndin hafa innt af hendi? Er eitthvert réttlæti í því að gera þá ráðherra ábyrga fyrir bankahruninu sem komu á vettvang eftir að það var orðið of seint að bjarga bankakerfinu? Eða er refsigleðin í samfélaginu með þeim hætti að dagskipunin er þannig að það verði með öllum tiltækum ráðum að hengja einhverja ráðherra í hæsta gálga og þá megi í raun einu gilda hvort viðkomandi var sekur um glæp eða ekki? Ég vona ekki. Það er ekki niðurstaða sem er sæmandi siðuðu samfélagi. Þó við uppfyllum ekki skilyrði þess sæmdarheitis núna þá hlýtur það a.m.k. að vera markmið okkar.

Virðulegi forseti. Ég harma það mjög að við skyldum ekki bera gæfu til að taka lögin um landsdóm og ráðherraábyrgð til endurskoðunar áður en á þurfti að reyna eins og Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri börðust fyrir árum saman. Við hefðum t.d. átt að fylgja fordæmi Dana og lengja fyrningarákvæði. Þar er fyrningarákvæði ráðherraábyrgðarlaganna að lágmarki fimm ár en ekki þrjú eins og hér. Reyndar var í upphaflegu ráðherralögunum frá 1903 miðað við fimm ára fyrningarfrest, en við endurskoðun laganna árið 1963 var fresturinn styttur í þrjú ár með þeim einkennilegu rökum að ekki væri eðlilegt að ráðherra gæti átt yfir höfði sér málshöfðun í svo langan tíma. Það þykir hins vegar eðlilegt í okkar réttarkerfi að almennir borgarar geti átt yfir höfði sér málshöfðun í fimm ár sem geta varðað tveggja ára fangelsi eins og hér um ræðir.

Það má líka læra af Dönum. Í títtnefndu Tamílamáli skipuðu þeir sérstakan rannsóknardóm sem hélt utan um rannsókn málsins áður en gefin var út ákæra á hendur fyrrverandi dómsmálaráðherra Danmerkur. Í þessu samhengi má vitna til orða Eiríks Tómassonar, lagaprófessors, sem segir í grein sinni um landsdóm í riti lagadeildar Háskólans á Bifröst, með leyfi forseta:

„Helsti ágallinn á lögunum um ráðherraábyrgð og landsdóm er að þar er ekki gert ráð fyrir því að fram fari sérstök rannsókn á áætluðum brotum ráðherra sambærilegt við lögreglurannsókn í opinberum málum áður en Alþingi tekur afstöðu til þess hvort höfða skuli mál á hendur honum fyrir landsdómi.“

Eiríkur segir þetta stríða gegn meginreglum gildandi laga um meðferð opinberra mála.

Virðulegi forseti. Í fyrri umræðu um ályktunina hef ég viljandi eytt tíma í að ræða form og feril sem málið hefur verið sett í og reynt að rökstyðja þá niðurstöðu mína að við þurfum að nýta tímann sem er til stefnu til að gaumgæfa hvort við getum enn fundið leiðir sem færa okkur nær réttlátri niðurstöðu í þessu örlagaríka máli. Niðurstöðu sem er hlutlæg og sanngjörn og skapar grundvöll sáttar í samfélaginu. Ég hef ýmislegt um þær þingsályktunartillögur að segja sem liggja fyrir þinginu og ákæruatriðin sem þar er að finna, en ég kýs að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum við síðari umræðu tillagnanna.

Ég vek athygli á því að það eru fleiri leiðir sem standa okkur til boða en ákærur á hendur þremur til fjórum ráðherrum sem hér liggja til grundvallar. Þannig liggur fyrir, eins og bent hefur verið á í fjölmiðlum undanfarna daga, að Alþingi gæti til viðbótar við þessar tillögur flutt og tekið til afgreiðslu sérstaka ályktun þar sem kveðið yrði á um ábyrgð einstakra ráðherra. Ekki aðeins frá 2007 heldur líka á tímabilinu 2002–2006 þegar þeir ráðherrar voru á vettvangi sem báru ábyrgð m.a. á einkavæðingu bankanna og höfðu jafnframt sannanlegar upplýsingar vorið 2006 um að bankakerfið væri komið að fótum fram en gripu ekki til aðgerða.

Í bók Styrmis Gunnarssonar, Umsátrið , er lýst skyndifundi á heimili Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra með bankastjórum viðskiptabankanna sunnudagskvöldið 26. mars 2006. Þessi fundur var haldinn að áeggjan Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi forsætisráðherra, sem stóð frammi fyrir óskum bankastjóranna um verulega aðstoð ríkisins til að mæta skyndilegum greiðsluvanda bankanna tengdum skammtímalánum. Í bókinni segir, með leyfi forseta:

„Bankastjórarnir óttuðust að daginn eftir, mánudaginn 27. mars, yrði slíkum lánum ýmist sagt upp eða þau ekki endurnýjuð og bankarnir mundu samstundis hrynja. Niðurstaða fundarins var sú að gera ekkert fyrir mánudagsmorgun en taka á vandanum ef hann kæmi upp. Þann dag gerðist ekkert.“

Þetta var í lok mars 2006. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis var þarna enn þá tækifæri til þess að afstýra bankahruninu. Stjórnendur Seðlabankans aðhöfðust ekki. Ráðherrar í ríkisstjórninni á þeim tíma aðhöfðust ekki. Það sem verra var, upplýsingum um þessa tvísýnu stöðu bankanna var haldið kirfilega leyndum í stjórnkerfinu gagnvart Alþingi og að sjálfsögðu gagnvart þjóðinni. Þöggunin tók völdin. Þegar Samfylkingin gekk inn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum vorið 2007 fengu forustumenn og ráðherrar Samfylkingarinnar engar upplýsingar um hina alvarlegu stöðu fjármálakerfisins. Halda menn virkilega að þá hefði verið samþykkt að setja í stjórnarsáttmála að ríkisstjórnin mundi tryggja áframhaldandi vöxt fjármálakerfisins og enn frekari útrás þeirra á alþjóðamörkuðum? Mikil er ábyrgð þeirra sem höfðu þessar upplýsingar en létu kyrrt liggja. Öll þjóðin ber nú byrðarnar á andvaraleysinu sem eftir á að hyggja var auðvitað glæpsamlegt.

Nú spyr ég: Er verjandi fyrir Alþingi að líta fram hjá þessum mikilvægu staðreyndum? Verðum við ekki að horfa á heildarmyndina og taka til greina ábyrgð ráðamannanna sem báru mesta ábyrgð á viðbrögðum eða viðbragða leysi stjórnvalda í því hörmungarfári sem yfir okkur dundi, að undanskildum stjórnendum bankanna sem við treystum að fái makleg málagjöld fyrir dómstólum landsins.

Í þessu samhengi yrði óhjákvæmilegt að taka tillit til ábyrgðar einstakra embættismanna svo sem bankastjóra Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins sem báru samkvæmt lögum mesta ábyrgð á að tryggja fjármálastöðugleika í landinu, ganga úr skugga um að fyrir hendi væru traustar varnir gegn meiri háttar áföllum í fjármálakerfinu. Slík heildstæð ályktun þingsins mundi ekki leiða til refsingar viðkomandi einstaklinga með sama hætti og þær ákærur ef samþykktar yrðu sem hér eru til umræðu. Með henni yrði komið á meira samræmi við niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis og stigið mikilvægt skref í átt til réttlætis og sanngirni í þeirri erfiðu en lífsnauðsynlegu söguskoðun sem hér stendur yfir.

Ég tel að við eigum að skoða slíka leið á næstu dögum í viðleitni til að ná sátt í þinginu og ekki síður í samfélaginu. Ég vil þó ítreka að með þessu er ég ekki að segja að það eigi ekki að taka til afgreiðslu þær þingsályktunartillögur sem fyrir þinginu liggja, það eigum við að gera. Skilaboðin frá þinginu verða mun faglegri, réttlátari og sanngjarnari ef heildstæð ályktun um ábyrgð ráðamanna allt frá einkavæðingu bankanna verður borin upp og afgreidd samhliða.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja þetta:

Tilgangur minn með þessum orðum er ekki að víkja mér undan því að horfast í augu við pólitíska og lagalega ábyrgð einstakra ráðherra, þar á meðal í mínum flokki. Við í Samfylkingunni berum sannarlega ábyrgð á mistökum og vanrækslusyndum mánuðina fyrir bankahrun. Minn flokkur sýndi andvaraleysi og hefði átt að bregðast við með kröftugri aðgerðum þegar ljóst var að stefndi í óefni. Það hefði ekki afstýrt hruninu, ef við trúum niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis, en það hefði efalítið dregið úr afleiðingum þess. Það er viðsnúningur á staðreyndum og í hrópandi mótsögn við eina meginniðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis að skella skuldinni fyrst og fremst á þá ráðherra sem sátu í ríkisstjórn eftir 2006 þegar fjármálakerfið var komið í slíkt öngstræti að því var ekki viðbjargandi. Allra síst þegar við höfum í huga að mikilvægum upplýsingum um alvarlega stöðu fjármálakerfisins var markvisst haldið leyndum frá ráðherrum sem settust í ríkisstjórn vorið 2007.

Verkefni okkar á Alþingi er þrátt fyrir allt að leita sannleikans, komast að niðurstöðu sem byggir á hlutlægri og faglegri greiningu á málsatvikum og ábyrgð þeirra einstaklinga í stjórnkerfinu sem stóðu næst hinum örlagaríku viðburðum. Skylda okkar er að reyna að ná niðurstöðu sem gefur okkur rétta heildarmynd af orsökum og ábyrgðarmönnum bankahrunsins og við höfum enn tækifæri til að ná því marki. Látum tækifærið ekki ganga okkur úr greipum.