139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[16:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna þar sem hann fór efnislega yfir frumvarpið og hljóp á stærstu þáttunum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um eitt atriði. Það kemur fram í frumvarpinu þar sem gerður er samanburður á hlutfalli stjórnenda og starfsmanna, þ.e. þar sem eru 150 starfsmenn eða fleiri, að hægt sé að lækka yfirstjórnarkostnað með þessari sameiningu um allt að 50% og því vil ég spyrja: Hvers vegna var ekki gert meira af því að lækka yfirstjórnarkostnað hjá þessum stofnunum á árinu 2011? Það kom fram í fjárlaganefnd, og ég gagnrýndi það mjög harðlega, að bæði þær stofnanir sem hér um ræðir eða réttara sagt tvær þeirra, annars vegar Vegagerðin og hins vegar Siglingastofnun, hafi á síðustu tveimur árum skorið niður allar framkvæmdir en ekki hafi verið skorið jafnmikið niður í yfirstjórn stofnananna. Þessi texti í frumvarpinu staðfestir því þær ábendingar sem ég hef komið með á fyrri stigum málsins.

Síðan kemur reyndar líka fram um heildarhagræðinguna, að árangurs af henni sé ekki að vænta fyrr en á öðru eða þriðja ári frá sameiningunni. Þá hlýtur að standa eftir sú spurning: Hvers vegna er það ef hægt er með frumvarpinu að spara um 50% í yfirstjórn þessara stofnana? Hvers vegna var það ekki frekar gert við fjárlög ársins 2011 þar sem búið var að skera niður stóran hluta verkefna hjá þessum stofnunum?

Niðurstaðan er sú að yfirstjórnin t.d. hjá Vegagerðinni, ég hef gögn um það, hef aflað mér þeirra, hefur ekkert minnkað, akkúrat ekki neitt. Þar eru menn með alls konar bitlinga enn þá en það er skorið niður í framkvæmdunum. Ég vil fá viðbrögð (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra við þessu sem kemur fram í frumvarpinu.