139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[16:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila um skilgreiningaratriði. Að uppistöðu til erum við að tala um sömu gjaldheimtu sem er ný í þeim skilningi að stofnunin er ný og innheimt er fyrir þau verkefni sem sú nýja stofnun sinnir. Aðeins varðandi þann þátt er um tvo kosti að tefla: Á að fjármagna starfsemina með gjaldheimtu notendagjalda eða á að gera það í gegnum skatta sem mér virðist hv. þingmaður vera efasemdarfullur um? Að uppistöðu til er þetta fyrirkomulagið. Ég held að ég hafi réttan skilning á því en ætla ekki að fullyrða meira en ég veit, en að uppistöðu til tel ég þetta vera svona.

Eitt nefndi ég ekki varðandi spurningar hv. þingmanns um samráð. Það hefur verið mikið og mun meira en oft í slíku sameiningarferli. Skipaður var hópur forstöðumanna viðkomandi stofnana og sinnti starfsmaður verkefninu sérstaklega. Þeir héldu formlega 25 fundi, heimsóttu stofnanirnar og lýstu vilja til að svara öllum spurningum sem fram voru reiddar sem voru margar. Eftir því sem mér er tjáð var staðið mjög vel og faglega að þeirri vinnu. Ég held að almenn ánægja sé með þetta. Það eru ekki allir ánægðir, það verður aldrei. Á heildina litið er bærileg samstaða um málið.

Að lokum: Þær breytingar sem við erum að ráðast í núna eru ekki til eilífðarnóns. Við hljótum að meta reynsluna (Forseti hringir.) og framhaldið með tilliti til hennar.