139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

278. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

Það er breiður hópur hv. alþingismanna sem er með á frumvarpinu; hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Björgvin G. Sigurðsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Ásbjörn Óttarsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Róbert Marshall, Jón Gunnarsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Birkir Jón Jónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Helgi Hjörvar.

Frumvarpið fjallar í rauninni um stóran þátt í framtíð Íslands sem veiðimannasamfélags, og við skulum ekki ganga að því gruflandi að íslenska veiðimannasamfélagið er einstakt í Evrópu. Ísland er eina þjóðin í Evrópu sem lifir á fiskveiðum eins og sagt er. 60% af þjóðartekjum Íslendinga koma frá hafinu, grunnurinn að öllum þeim feng sem við þurfum að afla og skila til verðmæta sem skiptir máli fyrir alla þætti þjóðlífsins, menntun, heilbrigðisþjónustu, félagsstarf, menningu og listir, alla þætti.

Meining þessa lagafrumvarps er að breyta á ný reglum og möguleikum til skipstjórnarmenntunar, þ.e. að teknir verði upp aftur skólar eða námsbrautir á Ísafirði, Dalvík, Hornafirði, Vestmannaeyjum og Reykjavík til að annast menntun og þjálfun skipstjóra til ótakmarkaðra réttinda á önnur íslensk skip en farþega- og flutningaskip.

Skilyrði inntöku í skóla eða námsbrautir samkvæmt frumvarpinu eru eftirfarandi:

a. að umsækjandi hafi staðist inntökupróf sem fara skal fram eigi síðar en tveimur vikum fyrir upphaf skólaárs,

b. að umsækjandi hafi lokið grunnskólaprófi eða sé ella 18 ára að aldri eða eldri,

c. að umsækjandi hafi áunnið sér a.m.k. 24 mánaða staðfestan siglingatíma eftir 15 ára aldur.

Markmið skóla eða námsbrauta skv. 1. mgr. er að útskrifa þá nemendur sem uppfylla skilyrði til inntöku sem skipstjóra með skipstjórnarréttindi innan lands á skip styttri en 45 metra á einu skólaári og sem skipstjóra með ótakmörkuð skipstjórnarréttindi á tveimur skólaárum.

Um námskrá, nám, námstilhögun, námsmat og námsstig til öflunar tiltekinna skírteina samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um framhaldsskóla og reglugerðum samkvæmt þeim.

Virðulegi forseti. Árið 1991 voru gerðar verulegar breytingar á reglum sem giltu um skipstjórnarnám á Íslandi. Höfðu þær breytingar í för með sér að hluti námsins var færður inn á framhaldsskólastigið. Frá því að þetta gerðist hafa orðið enn frekari breytingar á framangreindum reglum. Er svo komið að fyrirkomulag skipstjórnarprófa á Íslandi er útfært með það að markmiði að námið uppfylli kröfur alþjóðasamnings sem á frummálinu ber heitið International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Fishing Vessel Personnel, 1995.

Fyrir þær breytingar sem ráðist var í á árinu 1991, og voru undanfari fyrirkomulags námsins í dag, þurftu nýnemar að hafa lokið gagnfræðaprófi og stundað sjó í 24 mánuði eftir 15 ára aldur eða taka inntökupróf til að fá inngöngu í stýrimannaskóla. Stór hluti nemenda í skipstjórnarfræðum voru menn sem höfðu farið á sjóinn að loknu grunnskólanámi, stofnað heimili, komið sér þaki yfir höfuðið og síðan á aldrinum 25–35 ára ákveðið að afla sér skipstjórnarréttinda eftir umtalsverða reynslu á sjó. Stýrimannaskólarnir í Vestmannaeyjum og á Dalvík lögðu upp laupana í kjölfar breytinganna árið 1991. Var það óbætanlegt tjón, ekki síst fyrir Vestmannaeyjar þar sem skipstjórnarfræðsla hafði verið starfrækt með hléum frá þarsíðustu öld og óslitið frá árinu 1957. Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum sóttu að jafnaði fjölmargir nemendur víðs vegar að af landsbyggðinni og þar gátu nemendur framfleytt sér og sínum á auðveldari máta en annars staðar vegna þeirra atvinnumöguleika sem fyrir lágu með námi í stærstu verstöð landsins.

Í dag er staðan sú að mjög lítil aðsókn er að jafnaði í skipstjórnarnám á Íslandi. Innritast aðeins um 10–12 nemendur á ári í slíkt nám og er það ekki nægilegur fjöldi nemenda til að anna eðlilegri endurnýjunarþörf íslenska skipaflotans. Telja verður að haldi slík þróun áfram geti það haft alvarleg áhrif á þá starfsemi sem aflar Íslandi hvað mestra gjaldeyristekna. Af þeim sökum verður vart hjá því komist að takmarka það tjón sem fyrirsjáanlegt er og opna leið fyrir sjóreynda menn til þess að fá metna þá reynslu sem þeir búa yfir og nýta hana til að afla sér skipstjórnarmenntunar á tiltölulega skömmum tíma. Þar sem alþjóðleg viðurkenning skipstjórnarréttinda hefur náð þeirri útbreiðslu sem raun er verður þó ekki hjá því komist að takmarka þau réttindi sem mögulegt verður að afla með þessu móti á Íslandi við stjórn skipa innan lands.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjómönnum í öllum landshlutum verði boðið upp á að afla sér skipstjórnarréttinda og þeir þurfi að fara sem stystan veg í þeim tilgangi. Er hugsunin sú að með því móti sjái fleiri sér fært að hefja skipstjórnarnám. Þá er gert ráð fyrir því að inntökuskilyrði námsins taki mið af því að sem flestir sjóreyndir menn hafi tækifæri á að nýta þekkingu sína til réttindanáms. Eru markmið námsins útfærð í frumvarpinu en gert ráð fyrir því að öll frekari útfærsla þess fari fram af hendi fagaðila í kennslufræði og skipulagi skipstjórnarnáms með setningu reglugerða og námskráa. Þess má geta að þorri íslenskra skipstjóra hlaut skipstjórnarréttindi sín við álíka námsfyrirkomulag og frumvarpið stefnir að.

Það er þannig, virðulegi forseti, að frá því að lögum um menntun manna til skipstjórnarréttinda á fiskiskipum var breytt árið 1991 hefur fjarað undan grunni skipstjórnarmenntunar í landinu. Þau lög sem eru í gildi geta svo sem staðið áfram en þau miða við það að 16–17 ára unglingar, piltur eða stúlka, taki ákvörðun um að þau ætli sér að verða skipstjórar. Þau fara í nám sem jafngildir stúdentsnámi, fá að lokum húfuna á kollinn sinn og rétt til að stunda veiðar á fiskiskipum. Þau hafa enga reynslu, vita ekki einu sinni hvort þau eru sjóveik eða ekki. Það eru örfáir sem hafa sótt þessa leið inn í þá menntun vegna þess einfaldlega að 16–17 ára unglingur er ekki tilbúinn til að ákveða hvort hann ætli að verða skipstjóri, stýrimaður eða annað, hann hefur bara ekki þann grunn til að taka slíka ákvörðun. Reynslan hefur sýnt það á 20 árum.

Allur þorri skipstjóra á Íslandi í dag, nánast 100% skipstjóra á íslenska flotanum í dag eru menn sem fóru í stýrimannanám eftir tveggja ára reynslu á sjónum. Þeir hættu í námi af ýmsum ástæðum í bæði grunnskólum og framhaldsskólum, fóru út í lífið að vinna eins og sagt er, stofnuðu heimili, byggðu hús o.s.frv. og stunduðu sjóinn. Eftir eitthvert árabil höfðu þeir menn með þessa miklu reynslu áhuga á að afla sér frekari menntunar, þetta var raunin, og hún reyndist afar vel, var hvetjandi og skilaði miklum árangri fyrir alla útgerð, allar fiskveiðar á Íslandi.

Það er grundvallaratriði, virðulegi forseti, að við tökum slíka menntun aftur upp á Íslandi. Ef það verður ekki gert og hinu þrönga og í rauninni afmarkaða kerfi sem nú er í þessari menntun haldið fast í horfinu mun það verða til þess að eftir 10, 15, 20 ár verða ekki til íslensk skipstjórnarefni. Ætlum við þá, virðulegi forseti, að sækja skipstjóraefni fyrir íslenska flotann til annarra landa eða annarra heimsálfa af því að við höfum ekki döngun í okkur sjálf til að sinna þessum verkþætti, þessari menntun og þeirri uppbyggingu á reynslu sem til þarf til að viðhalda sterkum og öflugum sjávarútvegi hjá einni af fiskveiðiþjóðum Evrópu?

Það væri mikil synd ef slíkt færi úrskeiðis. Þess vegna þurfum við að taka upp þá stefnu sem lagt er upp með í frumvarpinu að tryggt verði að menn með reynslu á sjónum, menn og konur, geti farið í skipstjórnarnám á þeim grunni með eðlilegum inntökuprófum í grunngreinum og að skiptingin verði helst á nokkrum stöðum á landinu eins og getið er um í frumvarpinu. Það má alveg ætla að höfuðstöðin væri í Reykjavík, eins og hún hefur verið lengi í þessum efnum, en skólar hvort sem þeir væru á Ísafirði, Dalvík, Hornafirði eða Vestmannaeyjum skipta miklu máli. Þeir færa möguleikana nær því umhverfi sem um er að ræða, þeir dekka alla hreyfingu í þessum efnum, þeir eru hvetjandi og þeir skapa sterkari stöðu fyrir Ísland sem sjávarútvegsþjóð og fiskveiðiþjóð, þar er okkar dýrmætasta auðlind.

Þess vegna skiptir miklu að við vöknum upp við þann vondan draum sem nú er og horfum ekki á það ganga afskiptalaust fyrir sig að það fjari undan skipstjórnarmenntun í fiskveiðum á Íslandi. Þetta er handhægasta leiðin. Þetta er leið sem hefur reynst happadrjúg og farsæl, verið hvetjandi og gefið okkur mikið í aðra hönd sem þjóð, gefið okkur reynslu og styrk við stjórn fiskveiða. Og um leið og lögð hefur verið áhersla á aukinn þátt öryggismála sjómanna hefur slysum til sjós fækkað stórlega á undanförnum áratugum. Þessi reynsla og uppbygging kom með gömlu, litlu stýrimannaskólunum sem lögðu ofurkapp á að tryggja og auka þátt öryggisfræðslunnar. Það hefur síðan færst inn í skólakerfið að verulegu leyti og leitt til þess að sjóslysum hefur fækkað og þeim hefur fækkað sem farist hafa í sjóslysum.

Það má nefna, virðulegi forseti, að mikið er í húfi að þarna fari saman örugg skipstjórnarmenntun manna með reynslu og menntun í öryggismálum á alla lund. Á síðustu öld fórust til að mynda 500 sjómenn aðeins við Vestmannaeyjar, 500 sjómenn, fimm sjómenn á ári. Þetta hlutfall hefur minnkað á undanförnum árum með auknu öryggi, með aukinni skipstjórnarfræðslu og menntun, aukinni reynslu, betri tækjum, betri skipum o.s.frv. Við skulum því ganga leiðina áfram í þessum efnum en ekki aftur á bak og tryggja ekki síst þeirri auðlind okkar sem gefur okkur mest framtíðarskipstjórnarmenn úr röðum Íslendinga, íslenskra ungra manna og kvenna sem vilja taka þátt í þeirri vinnu og þeirri sköpun, þeirri hvatningu og þeim metnaði sem íslenskur sjávarútvegur hefur byggt upp.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, óska ég eftir að frumvarpið gangi til hv. samgöngunefndar.