139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svörin og alveg sérstaklega það að menn eigi alltaf að semja þótt þeir eigi fullan rétt. Ég er ekki viss um að allir fallist á það. Ég skil ekki af hverju í ósköpunum menn eru að semja ef þeir eiga fullan rétt en það er nefnilega það sem Íslendingar eiga. Það sem menn óttast og vantar inn í orð hv. þingmanns er að menn óttast að dómstóllinn verði ekki óvilhallur. Það er það sem menn óttast þegar við förum fram með mál. Menn óttast að ESA-dómstóllinn dæmi ekki samkvæmt lögum heldur samkvæmt pólitík. Það er það sem menn óttast og menn eiga að segja það.

Varðandi fjáraukalögin. Samkvæmt stjórnarskránni, 40. gr., má ekki heldur taka lán né skuldbinda ríkið. En það er verið að veita ríkisábyrgð á lán upp á 650 milljarða og það á að sjálfsögðu að færa í fjárlög eða fjáraukalög til að skattgreiðendur framtíðarinnar viti hvað Ísland skuldar.