139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög veigamikið atriði vegna þess að í þeirri umræðu sem fór þá í gang og hv. þingmaður tók drjúgan þátt í var stöðugt verið að velta upp nýjum hlutum. Það komu stöðugt fram ný gögn, nýr skilningur og ný álit, t.d. á bresku réttarkerfi, breskum lögum sem þessir samningar heyrðu undir og áhættunni. Það er dálítið undarlegt að stjórnarþingmenn og ríkisstjórnin hafi yfirleitt samþykkt þetta eftir svo skamman tíma. Það var útilokað að lesa fylgiskjölin á þeim skamma tíma sem menn höfðu frá því að undirritað var og þar til ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir samþykktu að leggja málið fram. Ég velti þessu upp vegna þess að þarna er upphafið. Nú erum við kannski að ganga frá endanum og vegna þess að hv. þingmaður hefur sett sig mikið inn í þetta mál vildi ég heyra sjónarmið hans á því hvort það væri tæknilega mögulegt. Þar fyrir utan voru þessi skjöl flestöll á ensku. Sumir eru ekki svo sleipir í ensku, m.a.s. sumir hæstv. ráðherrar, að þeir hafi getað lesið þessi skjöl öllsömul, kynnt sér efnið og verið búnir að mynda sér skoðun á öllum álitamálunum á þeim örskamma tíma sem leið frá því að skrifað var undir og þar til þetta var samþykkt í ríkisstjórn og síðan í þingflokkum og lagt fram.