139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir ágæta ræðu og álit sem hv. þm. Eygló Harðardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, stendur að ásamt henni.

Við erum að skrifa söguna í einu stærsta máli sem rekið hefur inn í sali Alþingis í sögu lýðveldisins, máli sem er í sinni þriðju umferð hér. Ég ætla svo sem ekki að fara yfir þá sorgarsögu, við þekkjum hana frá A til Ö. En mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvernig hún meti þann samning sem nú liggur fyrir, samning sem þrír af fimm stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi virðast ætla að styðja.

Það sem ég get ekki sætt mig við, og ég mundi vilja að hv. þingmaður gæfi mér álit sitt á því, er það að verði þetta samþykkt sitjum við Íslendingar uppi með alla efnahagslega áhættu af því hvernig framtíðarþróun á verðgildi eigna verður. Viðsemjendur okkar, Bretar og Hollendingar, bera enga ábyrgð. Ef allt fer á versta veg munum við, 300 þúsund manna þjóð, sitja uppi með þann stóra reikning. Það þýðir að hver einasti Íslendingur mun þurfa að borga 200 þús. kr. til 2 millj. kr. ef hlutirnir fara á versta veg á meðan staðreyndin er sú að við værum að tala um 1 evru eða 1–2 pund í tilviki Breta og Hollendinga. Þetta finnst mér ósanngjarnt og þess vegna get ég ekki gengið að þessum samningum. Þetta var fyrri spurningin.

Seinni spurningin er um verklagið. Við 3. umr. hafa fulltrúar Hreyfingarinnar og Framsóknarflokksins þurft að vera fram á miðjar nætur að skrifa álit sitt og ég velti því fyrir mér hvort þetta sé ekki endapunkturinn í því að bíta höfuðið af skömminni þegar kemur að vinnubrögðunum í þessu hryllilega máli.