139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson höfum báðir, og reyndar miklu fleiri þingmenn, verulegar áhyggjur af því hvernig þetta mál hefur verið unnið allt frá upphafi. Það er mjög undarlegt að ekki skuli hafa verið sýndir neinir tilburðir í þá veru á lokasprettinum að vinna það með öðrum og betri hætti.

Eitt af því sem er mikil óvissa um núna þrátt fyrir að til standi að klára málið á morgun er staða Landsbankans eða réttara sagt geta hans til að fjármagna skuldabréfið sem er ein af megineignum þrotabús gamla Landsbankans, skuldabréfið frá nýja Landsbankanum. Menn hafa haft efasemdir um það og reyndar hafa þær efasemdir verið staðfestar af bankanum sjálfum um að nægur gjaldeyrir komi inn í bankann til að hann geti staðið undir þessu. Hvaða upplýsingar liggja fyrir um það? Hefur þetta mál, að mati hv þingmanns, verið nógu vel yfirfarið í fjárlaganefnd? Ef það er tilfellið að Landsbankinn geti ekki fjármagnað þetta skuldabréf í erlendri mynt nema með því að kaupa aukalega gjaldeyri af Seðlabankanum breytir það stöðunni töluvert.

Við megum ekki gleyma því að eitt helsta vandamálið við þessa samninga alla gengur út á að Íslendingar borgi verulegar upphæðir í erlendri mynt. Þá er ósvarað spurningunni um hvernig menn ætli að verða sér úti um þá erlendu mynt, hvernig þeir ætli að safna nægu fé til að standa undir afborgunum. Það er mjög stór spurning og ég hefði áhuga á að fá yfirlit frá hv. þingmanni um hvernig fjárlaganefndin hefur tekið á þessu.