139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að þingsályktunartillagan fari til umfjöllunar og afgreiðslu í utanríkismálanefnd Alþingis.

Efnislega er þetta tiltölulega einföld tillaga þar sem lagt er til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Forsaga málsins ætti að vera flestum hér innan dyra kunnug en þann 16. júlí 2009 ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Mikil umræða varð um málið í þinginu og hefur verið í samfélaginu frá þeim tíma.

Það er mat okkar flutningsmanna tillögunnar að allt þetta ferli sé á ákveðnum misskilningi byggt og í rauninni sé farið af stað á röngum forsendum. Ljóst var af umræðunum í þinginu á þeim tíma að ýmsir þingmenn töldu að hægt væri að fara í svokallaðar könnunarviðræður við Evrópusambandið. Um þetta hefur mikið verið rætt og var m.a. hvatt til þess af hálfu utanríkisráðherra að tillaga sem þessi kæmi fram í þinginu og fengi umræðu. Það hlýtur því að vera fagnaðarefni fyrir alla, hverrar skoðunar sem þeir eru, að hún sé hér fram komin og menn geti rætt málið í þaula. Ég vonast til að tillagan fái vandaða og umfangsmikla meðferð í utanríkismálanefnd.

Þegar teknar eru stórar ákvarðanir um utanríkisstefnu þjóðarinnar hefur yfirleitt verið reynt að koma málum þannig fyrir að breið samstaða sé um slíkar grundvallarbreytingar og grundvallarstefnubreytingar. Í þessu máli var ekki svo. Við þekkjum það að ýmsir þingmenn hafa lýst því hvernig reynt var að beita þá þrýstingi við atkvæðagreiðsluna í þinginu og að þingmenn Vinstri grænna hafa lýst því yfir að gengið sé þvert gegn stefnu flokksins í þessu máli vegna þess að þetta sé krafa Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfi.

Þessar forsendur að baki umsókninni eru ekki mjög sterkar. Almennt er það svo þegar ríki sækir um aðild að Evrópusambandinu að ráðandi aðilar innan þess ríkis eru þeirrar skoðunar að það sé hagsmunum þjóðarinnar fyrir bestu að ganga í Evrópusambandið. Sú forsenda liggur ekki fyrir í þessu máli. Því er ferlið allt frekar undarlegt og ljóst að ýmsir aðilar úti í Brussel eru hálfhissa á hvernig á málum er haldið hér á landi og hvernig stjórnvöld á Íslandi nálgast þessa umsókn. En horfa verður á málið eins og það er og staðan er þessi. Menn hafa ekki mikla sannfæringu fyrir því að mikil heilindi séu á bak við þessa umsókn og ferlið allt og því teljum við flutningsmenn tillögunnar rétt að draga umsóknina til baka. Menn geta svo ef einhvern tímann verður til þess pólitískur meiri hluti í þinginu og víðtæk vissa um að rétt sé fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið lagt inn umsókn á þeim forsendum, sem er svona venjan þegar þjóðríki sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ein helsta röksemdin fyrir því að sækja skyldi um aðild á sínum tíma var sú að með því ættum við aðgang að evrunni. Því var haldið fram að þetta væri leiðin til að koma á efnahagslegum stöðugleika og ná í nýjan gjaldmiðil á tiltölulega fljótvirkan og einfaldan hátt. Mikil umræða hefur farið fram um gjaldmiðilsmálin frá þeim tíma og í svari við fyrirspurn minni til þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússonar, kom fram að það væru u.þ.b. 15 ár að hans mati þangað til Ísland uppfyllti skilyrði til að taka upp evru. Nú er það svo að lönd sem sækja um að taka upp þann gjaldmiðil þurfa að uppfylla hin svokölluðu Maastricht-skilyrði og ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að Ísland uppfylli Maastricht-skilyrðin, þau segja til um að það sé ákveðið heilbrigði í efnahagslífinu í því landi þar sem þau eru uppfyllt. Ég held að það sé einfaldlega gott markmið að reyna að ná því án þess þó að ég sé þeirrar skoðunar að það sé lausn að taka upp evru. Í sjálfu sér snýst þetta ekki um það heldur er það mikil einföldun að halda því fram að það að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga í það leysi efnahagsvandamál okkar. Við þurfum að gera það sjálf, það verður erfitt, það mun taka tíma og við eigum að einbeita okkur að því verkefni.

Ein helsta ástæðan fyrir því að þessi tillaga er lögð fram er sú að flutningsmenn tillögunnar telja þá forgangsröðun að eyða bæði tíma, peningum og kröftum stjórnsýslunnar og íslenska ríkisins í umsókn á þessum tímapunkti og á þessum röngu forsendum ranga forgangsröðun. Við teljum að þetta sé ekki það sem við eigum að einbeita okkur að núna. Við teljum að kröftum stjórnsýslunnar væri betur varið í það að við reynum sjálf að byggja upp efnahagslíf okkar og að þeim miklu fjármunum sem eytt er í þetta ferli sé betur varið í önnur verkefni en hér er verið að gera.

Reyndar hefur verið talsvert erfitt að fá upp á borðið og fá það fram frá hæstv. utanríkisráðherra hversu miklum fjármunum er verið að eyða í þetta aðildarferli og aðlögunarferlið sem er í gangi. Fjölmargir þingmenn hafa beint mörgum og ólíkum en samt efnislega samhljóða fyrirspurnum til hæstv. utanríkisráðherra um kostnaðinn við þetta ferli, en engu að síður liggur það ekki fyrir. En þegar allt er lagt saman sem hægt er að grafa upp undir hinum ólíku liðum fjárlaganna og af þeim óljósu svörum sem okkur hafa birst í þinginu, er það mat okkar að kostnaður ríkisins sé a.m.k. 7 milljarðar kr. Við teljum einfaldlega að þeim fjármunum sé betur varið til brýnna verkefna í þágu íslensks samfélags. Og í ljósi þeirrar stöðu sem íslenski ríkissjóðurinn er í teljum við óverjandi að eyða þessum fjármunum í þetta verkefni, sérstaklega vegna þess að enginn raunverulegur pólitískur vilji er á bak við umsóknina nema af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar og það dugar einfaldlega ekki til þess að hér ríki breið sátt og breið samstaða um að fara þessa leið.

Ljóst er að Evrópusambandið stendur frammi fyrir mjög stórum úrlausnarefnum. Þar hefur hrikt aðeins í stoðunum vegna stjórnunar efnahagsmála og það er erfitt að horfa á það vegna þess að það hefur auðvitað áhrif á okkur öll og allt samfélagið í álfunni. Mikil umræða hefur verið um myntina sjálfa og þau lönd sem eru að sækja um aðild að Evrópusambandinu og eins hefur mikil umræða verið um það hvert Evrópusambandið er að stefna og hvert það er að þróast. Á meðan ekki er ljóst hvert Evrópusambandið stefnir tel ég að við eigum ekki erindi í sambandið. Það er ljóst miðað við umræðuna að sambandið mun væntanlega taka grundvallarbreytingum á næstu missirum og á þessum miklu óvissutímum tel ég gáfulegra fyrir íslenska þjóð að bíða eftir því hvernig það muni þróast.

Af hálfu Sjálfstæðisflokksins liggur fyrir skýr stefna; flokkurinn og landsfundur flokksins telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB en innan. Jafnframt liggur fyrir skýr ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá því í sumar um að draga beri umsóknina að Evrópusambandinu til baka. Það er því algjörlega skýr stefna á þeim bænum sem birtist m.a. í þessari tillögu hér. Engu að síður eru skiptar skoðanir um hvort klára eigi það aðlögunarferli sem við stöndum í eða ekki. Mín afstaða er klár, ég tel að draga eigi hana til baka og byrja aftur upp á nýtt ef menn hafa einhverja sannfæringu fyrir því á seinni stigum málsins. Aðrir hafa haldið því fram, og það mun væntanlega koma fram í umræðunni á eftir, að fyrst farið er af stað verði að ganga veginn til enda og sjá hvað kemur upp úr kassanum. Ég tel að það liggi fyrir hvað koma muni upp úr kassanum vegna þess að við vitum hvað Evrópusambandið er og fyrir hvað það stendur. Það þarf ekki að eyða miklum tíma hvað þá fjármunum í að komast að því. Ég tel einfaldlega rangt að eyða orku í þetta núna.

Menn hafa fullyrt hér fjálglega að mjög margar undanþágur frá regluverki Evrópusambandsins verði okkur til handa, að við munum á einhverjum tímapunkti vera orðin alráð varðandi fiskveiðistjórnarkerfi Evrópusambandsins o.s.frv. Fleiri ummæli hafa fallið í þessa veru. Evrópusambandið er til. Það hefur ákveðið regluverk. Við eigum að geta gert okkur ágætlega grein fyrir með því að lesa m.a. heimasíðu Evrópusambandsins fyrir hvað það stendur. Það liggur einfaldlega ljóst fyrir hvað það er sem við erum að sækja um aðild að. Ísland hefur lagt inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu, Evrópusambandið hefur ekki sótt um aðild að Íslandi og ætlar ekki að breyta sér í kjölfar þess í þá átt sem Ísland vill. Því miður er það ekki þannig. Það þarf að ræða þetta mál á þeim nótum.

Frú forseti. Þegar öllu er á botninn hvolft eru væntanlega ólíkar skoðanir um hvort draga beri umsóknina til baka. Þær byggja annars vegar á því að menn eru annaðhvort búnir að móta sér afstöðu fyrir fram um hvort þeir vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki. Á hinn bóginn ganga þær væntanlega út á það að menn vilja klára ferlið fyrst lagt er af stað eða þeim finnst tilgangslaust að gera það eins og flutningsmönnum og rétt að eyða tíma, peningum og kröftum stjórnsýslunnar í önnur verkefni sem brýnni eru í ljósi efnahagsástands þjóðarinnar.