139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefði átt að vera í salnum áðan og hlusta á hv. þm. Árna Þór Sigurðsson sem er búinn að svara þessu. Mér finnst þessi orðaleikur um aðlögun hálfbarnalegur og -kjánalegur ef ég á að segja alveg eins og er. (ÁsmD: Ég var að hlusta.)

Gaman væri ef hv. þingmenn gætu farið í smávegis hugarflug um að við værum búin að gera samning um að ganga í Evrópusambandið og það þyrfti að breyta einhverjum ákveðnum stofnunum til þess. Þá yrðum við að hafa áætlun um hvernig við ætluðum að gera það. Við verðum ekki aðilar fyrr en við erum búin að samþykkja það og gera þessar breytingar. Eftir að samningur hefur verið samþykktur tekur það ár. Við þurfum hins vegar að hafa áætlunina, það er alveg rétt. Ég veit ekki hvort það er það sem hv. þingmaður á við. Það var tekið dæmi um breytingar sem voru gerðar á dómstólakerfinu. Það gæti einhver túlkað þær sem aðlögun að Evrópusambandinu vegna þess að það er eitthvað nær þeim kröfum sem þar eru gerðar um sjálfstæði dómstóla en við höfðum hér áður. Ég tel þetta sjálfsagða breytingu. Við gerum hér breytingar vegna samninga okkar við EES og á allri þeirri löggjöf sem við erum með þar. Ef menn vilja kalla það aðlögun köllum við það bara aðlögun. Ég ber engan ótta fyrir því, ég segi það alveg eins og er.