139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í stefnu framsóknarmanna þegar kemur að þessum málum. Framsóknarflokkurinn samþykkti að sækja um aðild með ákveðnum skilyrðum. Atkvæðagreiðslan, þegar þessi þingsályktun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu var samþykkt, er minnisstæð. Þá lagði Framsóknarflokkurinn fram ákveðnar breytingartillögur um að setja þessi skilyrði inn í þessa þingsályktunartillögu. Nú sjáum við það til að mynda varðandi landbúnað, sjávarútveg og fleira að margar yfirlýsingar hafa verið í þá veruna að litlar undanþágur séu mögulegar, nú síðast með gjaldmiðilsmálin þar sem eina aðstoðin sem Evrópusambandið var tilbúið til að veita okkur Íslendingum þegar kemur að evrunni var einhver tæknileg ráðgjöf. Það var ekki nokkur stuðningur við gjaldmiðilinn, íslensku krónuna, eða aðstoð við að taka upp evruna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að í þessu ferli sé verið að fylgja stefnu framsóknarmanna varðandi þetta mál. Ef hann telur að þetta fylgi ekki stefnu framsóknarmanna hvað þarf þá að breytast? Hvernig sér hann þetta ferli út frá þeim 10 skilyrðum, að ég held, sem sá flokkur setti?