139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:14]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni sem ég beindi til hans. Spurningin var þessi: Verður Ísland aðili að Evrópusambandinu fyrr en þjóðin hefur samþykkt það í þjóðaratkvæðagreiðslu? Er það ekki alveg skýrt að fyrst fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla, þegar aðildarsamningarnir liggja fyrir, og þá fyrst verður Ísland aðili að Evrópusambandinu ef þjóðin samþykkir það?

Ég fyrir mitt leyti hef alltaf litið svo á að það væri ferlið og ég held að það sé rétt hjá mér. Ég hef líka litið svo á og áskilið mér rétt til þess að taka afstöðu til þeirra samninga þegar þeir liggja fyrir. Ég mótmæli því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns að gengið hafi verið fram með ólýðræðislegum hætti í þinginu. Er eitthvað ólýðræðislegt við það að ræða pólitík hvort sem það er í mötuneytinu eða í hliðarsölum við þingmenn? Eru það ekki fullburða stjórnmálamenn sem eru á þingi hér fyrir Vinstri græna? Geta þeir ekki tekið málefnalegar umræður um það sem fram fer í þinginu?

Ég mótmæli því líka að það sé með einhverjum hætti ólýðræðislegt að hægt sé að sækja um styrki til Evrópusambandsins í því ferli sem fram undan er. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður hefur líka gagnrýnt þann kostnað sem íslenska ríkið verður fyrir með þessu. Hér rekur sig hvert á annars horn í (Forseti hringir.) málflutningi hv. þingmanns.