139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að blanda sér í umræðuna. Það er gott að mismunandi sjónarmið komi fram. Ég fagna því að hv. þingmaður er ekkert feiminn við að viðurkenna að aðlögunarferli sé í gangi. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti sagt til um það, ef hún veit það þá, hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra getur ekki einfaldlega talað hreint út og sagt það sem blasir við öllum.

Ég ber virðingu fyrir því hversu stefnufastur þingmaðurinn hefur verið í þessu máli og ekki feiminn við að lýsa yfir sannfæringu sinni, og það er vel. Og ég er sammála hv. þingmanni um að það besta sem komið getur fyrir þessa þjóð er að ríkisstjórnin fari frá.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem hefur mikla sannfæringu í þessu máli, og lýsti því hér yfir að vissulega fylgdi hugur máli hvað þann þingmann varðaði sem stóð í pontu: Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að frá þingmönnum Vinstri grænna hafa komið talsvert loðin svör og villandi yfirlýsingar um framgang þessa máls og þetta ferli allt saman? Fram hafa komið ýmsar yfirlýsingar, m.a. frá formanni Vinstri grænna, um að ríkisstjórnin hafi ekkert sérstaklega mikið með þessa umsókn að gera og beri enga ábyrgð á hlutum o.s.frv. Telur hv. þingmaður ekki að yfirlýsingar sem þessar og þær vöflur sem eru á sumum þingmönnum Vinstri grænna í þessu máli tefji fyrir og skemmi að einhverju leyti þetta ferli? Ef ég væri sammála hv. þingmanni, um að sækja ætti um aðild, mundi það vissulega trufla mig, ég hef marglýst því yfir.

Hv. þingmaður minntist á það í ræðu sinni að við værum að hlakka yfir því að illa gengi í efnahagsmálum í Evrópu. Ég fór sérstaklega yfir það í ræðu minni í gær að það væri alls ekki það sem átt væri við, og við hefðum áhyggjur af því hvernig mál væru að þróast varðandi evruna, bara til þess að það komi fram.