139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ágæta ræðu, ég virði að sjálfsögðu sjónarmið hennar. Hún segir reyndar í ræðu sinni að engum aðildarsinna hafi nokkurn tímann dottið í hug að aðild að Evrópusambandinu sé lausn á efnahagsvanda Íslendinga. Ég held að nánast allur þingflokkur Samfylkingarinnar sé þeirrar skoðunar og hafi lýst því yfir, að atvinnuleysi verði minna, vextir lækki, lífskjör þjóðarinnar batni og ég veit ekki hvað.

Svo er það spurningin með fullveldið. Mér skilst á sumum að fullveldið felist í því að geta afsalað sér fullveldi. Það er dálítið undarlegur skilningur. Ég held að Danmörk sé ekki fullvalda ríki. Danmörk getur t.d. ekki gert samninga við Kína. Evrópusambandið sér um þann enda.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, hefur lengi langað til þess: Evrópusambandið myndaðist úr Kola- og stálbandalagi Þjóðverja og Frakka. Síðan mynda sex ríki 1957 samband sem er fest í sessi 1967, fyrir 43 árum, og svo myndast Evrópusambandið. Og ef við förum í gegnum þessa þróun hefur hún verið óskaplega hröð, ef maður horfir á þetta út frá því viðmiði sem ein öld er.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er þetta ekki svipað eins og að hoppa upp á lest sem er á fleygiferð eitthvert? Og endar Evrópusambandið ekki örugglega sem eitt ríki eins og Bandaríkin? Verða ríkin þar ekki eins og Texas og önnur ríki og Ísland eins og smáhreppur norður í hafi, hreppur í risastóru ríki? Verða þá örlög okkar ekki svipuð og var þegar við vorum í 600 ár í sambandi við ágætisríki í Evrópu sem hét Danmörk, áður í sambandi við Noreg? Endum við ekki í þeirri stöðu að við verðum alltaf sem aukahjól í þessu?