139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:27]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi einmitt farið í gegnum það í ræðu minni að ég væri svo sannarlega tilbúin til að skoða þær tillögur sem komu fram hjá þeim sérfræðingum sem komu fyrir viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr. og þær tillögur sem þeir leggja fram um það hvernig hægt væri að auka samkeppnina og draga úr þeim aðstæðum sem standa samkeppninni helst fyrir þrifum. Ég hefði mjög gjarnan viljað sjá í þessu minnihlutaáliti einhvers konar tillögur um það hvernig mætti gera það nákvæmlega. Það skal ekki standa á mér ef þess háttar tillögur koma frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um það hvernig við getum dregið úr aðgangshindrunum og búið svo um hnútana að Samkeppniseftirlitið geti lokið þeim rannsóknum og athugunum sem lögin útheimta innan fárra mánaða. Það er alveg á hreinu að ég vildi gjarnan sjá þær tillögur koma inn í þingið.

Hvað varðar hins vegar þær ábendingar sem komu fram í ræðunni hjá hv. þingmanni um að flokksbræður mínir hefðu sett fram mun meiri efasemdir um ágæti þessa máls en ég í ræðu minni áðan vil ég vísa til þess að ég hef starfað meira innan smásölu, en þeir hafa starfað meira í framleiðslugeiranum sjálfum. Eftir þá reynslu er ég sannfærð um að markaðsvaldið varðandi t.d. landbúnaðinn liggur fyrst og fremst hjá smásalanum. Þar eru samkeppnishömlurnar, smásalinn stjórnar aðganginum að neytandanum, að markaðnum, og þess vegna tel ég það skipta máli þegar við horfum á þetta, sérstaklega í ljósi búvörulaganna. Og ég treysti Samkeppniseftirlitinu til að fara með þetta vald.

Varðandi þá ábendingu að maður ætti að treysta sérfræðingum er það a.m.k. mitt mat, ég veit ekki með hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, (Forseti hringir.) að við séum kosin inn á Alþingi til að vega og meta það sem kemur fram hjá sérfræðingum og taka síðan afstöðu sjálf (Forseti hringir.) út frá því en ekki sitja og standa eins og sérfræðingar úti í bæ vilja.