139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki svara fyrir hv. þingmann en ef fram kæmu athugasemdir frá færustu sérfræðingum þjóðarinnar á sviði samkeppnisréttar og ég væri flutningsmaður að þessu frumvarpi og athugasemdirnar lytu að því að verulegur vafi væri á því að efni frumvarpsins stæðist ákvæði stjórnarskrár, að um væri að ræða ólögmætt framsal valds til Samkeppniseftirlitsins, að frumvarpið bætti ekki núgildandi samkeppnislög og að ákvæði sem það mælir fyrir um væri svo óskýrt og matskennt að ekki væri hægt að búa við það, þá mundu renna á mig tvær grímur. Ég tala ekki um í ljósi allrar þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í þingsalnum um fagleg, vönduð og góð vinnubrögð við lagasetningu.

Ég hlýt að ítreka spurningu mína til hv. þingmanns, hvort hann taki ekkert mark á þessum athugasemdum og efasemdum okkar færustu sérfræðinga, hvort hann ætli bara að ýta þeim út af borðinu eins og þær hefðu ekki komið fram. Mér væri alla vega frekar órótt ef slíkur dómur yrði felldur um frumvarp sem ég væri að mæla fyrir.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að Samkeppniseftirlitið fer eftir alls kyns verklagi í málsmeðferð einstakra mála og allt gott um það og ýmsir stuðningsmenn frumvarpsins hafa fjallað um það í ræðum sínum. En megingagnrýni þeirra sem gagnrýnt hafa þetta ákvæði, þar á meðal fræðimennirnir, hafa sagt að þau væru góðra gjalda verð, þ.e. þær málsmeðferðarreglur (Forseti hringir.) sem hér hefur verið lýst, ef þau væri að finna í lagatextanum sjálfum. Meðan svo er ekki verður ákvæðið eftir sem áður óljóst, (Forseti hringir.) matskennt og í rauninni óskiljanlegt. Það er neytendum ekki til góðs frekar en fyrirtækjunum.