139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[15:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að málið sé tekið til umfjöllunar. Að mínu mati var ekkert óskýrt í því. Hins vegar fór Félag íslenskra bifreiðaeigenda fram með rangar upplýsingar. Ég hefði sjálfur alveg getað skrifað undir undirskriftalistann þeirra eins og hann var settur fram, en nóg um það.

Það eru tveir kostir í stöðunni eins og hæstv. innanríkisráðherra hefur bent á. Við höfum ákveðna peninga í ríkisframkvæmdir sem eru 6 milljarðar í ár. Annar kosturinn er annars vegar að fjármagna verkið með lánum frá lífeyrissjóðunum eins og viðræður stóðu um allt síðasta ár. Þá er hægt að byggja upp vegi á fjórum árum á suðvesturhorninu fyrir 30 milljarða kr. Hins vegar væri hægt að vinna verkið í hefðbundinni ríkisframkvæmd en 6 milljarðar á ári fyrir fjögur vegagerðarsvæði gera um 2 milljarða á hvert svæði. Það er ýmislegt fleira sem þarf að gera en þessa vegi. Segjum sem svo að einum milljarði verði þá varið í þessa tilteknu vegi á ári, miðað við hlutfall sem ég geri hér að umtalsefni, þá er það 30 ára framkvæmd. Þetta eru þessir tveir kostir; flýtiframkvæmd þar sem við mundum aka á nýjum, fullkomlega öruggum vegum í 25 ár með hóflegu veggjaldi eins og alltaf var talað um, eða að keyra núverandi vegi í 25 ár og mjatla inn í það ríkispeningum, olíugjaldi og bensíngjaldi sem fara hríðhækkandi. Það eru kostirnir sem við stöndum frammi fyrir. Ríkisstjórnin samþykkti flýtiframkvæmdaleiðina 10. desember síðastliðinn. Alþingi samþykkti með miklum atkvæðamun frumvarpið sem ég lagði fram á þingi, þar á meðal voru menn úr öllum flokkum, 13 þingmenn Sjálfstæðisflokks, 17 frá Samfylkingu, 10 frá Vinstri grænum, 3 frá Framsóknarflokki, sem studdu allir þá útfærslu. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það sem vantar hins vegar á er að útfæra málið betur og að menn ræði það í ró og spekt án þess að gefa rangar upplýsingar um það eins og FÍB er því miður (Forseti hringir.) sekt um.