139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

lækkun flutningskostnaðar.

517. mál
[16:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á máli sem er gríðarlegt hagsmunamál fyrir marga íbúa landsbyggðarinnar, ég er að tala um flutningskostnað sem oft hefur verið rætt um úr ræðustóli Alþingis og sannarlega ekki að tilefnislausu. Flutningskostnaðurinn hefur oft og tíðum verið mjög sligandi, a.m.k. á ákveðnum landsvæðum. Svar okkar hefur m.a. verið það að segja: Við skulum reyna að draga úr flutningskostnaði, t.d. með því að bæta ástand vega og leggja nýja vegi sem gæti gert það að verkum að flutningskostnaður minnkaði. Stundum hefur tekist mjög vel til. Ég tek sem dæmi að þegar lokið var við að tengja norðanverða Vestfirði við aðalþjóðvegakerfi landsins þá lækkaði flutningskostnaður þar um 5 eða 10 prósentustig í einu vetfangi sem afleiðing af því að flutningskostnaður fyrirtækjanna sem fluttu vörur lækkaði og gaf þeim þar með svigrúm til þessarar til lækkunar.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Því miður breyttist þetta mjög fljótt, m.a. fyrir atbeina ríkisins sem lagði á aukin gjöld á eldsneytiskostnað eins og allir vita, ásamt með öðru sem varð þess valdandi að sú lækkun sem við fengum þarna eftir 20 ára baráttu fyrir góðum vegi þurrkaðist út á nánast einum sólarhring.

Við sem förum um landið og tölum við fólk í kjördæmunum verðum vör við að flutningskostnaður er að verða mjög íþyngjandi, meira en mig rekur eiginlega minni til, því að þrátt fyrir batnandi vegasamgöngur fer kostnaðurinn stöðugt vaxandi. Fyrr í dag var hér rætt um eldsneytiskostnað og auðvitað er hann mjög ráðandi í þessu sambandi. Ég vil hins vegar leggja á það áherslu að sú þróun og sú staða sem uppi er varðandi flutningskostnaðinn á landsbyggðinni er ekki ný af nálinni. Við verðum þess vegna að reyna að horfa á þetta í því samhengi.

Það sem er að gerast í eldsneytismálunum núna, þ.e. orkukostnaður og olíu- og bensínkostnaður, kemur síðan til viðbótar við þann vanda sem fyrir er.

Það er ljóst að flutningskostnaður hefur mjög mikil áhrif á búsetuskilyrði á landsbyggðinni. Menn velja sér búsetu m.a. eftir því hvort þar sé dýrt eða ódýrt að búa. Þegar flutningskostnaður hækkar, flutningur á aðföngum fyrir heimilin sem hefur m.a. áhrif á vöruverðið, hefur það auðvitað áhrif á búsetu manna.

Sama er um staðsetningu fyrirtækja. Við sjáum því miður mörg dæmi um að fyrirtæki sjá sér ekki hag í því lengur að starfa á landsbyggðinni og hafa verið að flytja starfsemi sína. Það kom t.d. fram í viðtali við framkvæmdastjóra TH-innréttinga á Ísafirði að flutningskostnaður þar hafi hækkað um 15–55%. Hann segir að kostunum við að reka fyrirtæki á þessu svæði hafi því fækkað hratt að undanförnu. Sagt var frá því nýlega að beituverksmiðja, sem er sprotafyrirtæki, sem sett var á laggirnar í Súðavík muni mögulega flytja sig um set vegna hækkandi flutningskostnaðar. Þannig má áfram telja.

Hluta af þessum vanda verður auðvitað að rekja til hækkandi skatta. (Forseti hringir.) Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í þessu sambandi vegna þess að hér er um að ræða samfélagslegt verkefni sem við verðum að takast á við.