139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

lækkun flutningskostnaðar.

517. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin og sömuleiðis þá umræðu sem farið hefur fram.

Vísvitandi fór ég ekki af stað í þessa umræðu í því skyni að fara í neinar þrætur við hæstv. ráðherra um það hvort verið væri að skattleggja orkuna, olíuna og bensínið, óeðlilega mikið eða hvernig þessu væri háttað í samanburð við önnur lönd. Ég held að við verðum að reyna að horfa fram hjá því.

Staðreyndin er svona: Flutningskostnaðurinn er í dag algjörlega sligandi fyrir marga íbúa landsbyggðarinnar og sérstaklega fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni. Ef þetta heldur áfram svona mun það einfaldlega gerast, sem við sjáum að er þegar farið að gerast, að starfsemi flyst af landsbyggðinni og suður á höfuðborgarsvæðið þar sem markaðurinn er stærstur, þar sem þægilegast er að koma við ýmsum hlutum vegna nálægðarinnar við innflutningshöfnina í Reykjavík. Ef þetta heldur svona áfram mun smám saman draga úr atvinnusköpun á landsbyggðinni og fólkið mun þá fara á eftir. Þannig standa þessi mál.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði áðan að hann vildi láta skoða það hvort hægt væri að fara þær leiðir sem menn voru að ræða um fyrir nokkrum árum um endurgreiðslu á flutningskostnaði. Ég veit að það er ekki alveg einfalt mál en er hins vegar mál sem við verðum að fara að skoða að nýju.

Ég vek athygli á því að þær hækkanir sem hafa verið að dynja yfir núna á eldsneytiskostnaðinum eru væntanlega ekki farnar að skila sér að neinu marki, a.m.k. ekki að fullu út í flutningskostnaðinn. Það mun hins vegar fara að gerast á næstu vikum og mánuðum. Flutningsfyrirtækin eru t.d. farin að innheimta fyrir nokkru síðan sérstakt orkugjald á pökkum sem þau flytja og er mjög íþyngjandi fyrir ýmsa pakkavöru sem kemur m.a. beint niður á hag fólksins í landinu, ég tala nú ekki um atvinnufyrirtækin.

Þetta er einfaldlega verkefni sem við stöndum frammi fyrir og við getum ekki vikist undan því. Það getur vel verið að þetta þýði að við verðum einhvern veginn að bregðast við varðandi skatta eða með endurgreiðslum. Það er verkefni og úrlausnarefni sem við verðum að vinna á, en a.m.k. hljótum við að vera sammála um það og ég veit að við erum (Forseti hringir.) sammála um það, ég og hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem talaði hérna áðan, að þetta getur ekki gengið svona, flutningskostnaðurinn er allt lifandi að drepa. (Forseti hringir.)