139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

þjónusta dýralækna.

552. mál
[17:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Með þeirri matvælalöggjöf sem nú er í gildi var gert ráð fyrir því að reyna að skilja á milli hinnar almennu dýralæknaþjónustu og eftirlitsins. Það er í sjálfu sér ekki óskynsamlegt prinsipp, ef við getum orðað það svo, en þá verður hins vegar að taka tillit til séraðstæðna hér á landi, fámennisins og dreifbýlisins. Það var gert frá upphafi og m.a. gert ráð fyrir því sem nú er búið að leiða í lög að eftirlitsdýralæknarnir fengju leyfi til að sinna almennri dýralæknaþjónustu vegna þeirra séraðstæðna sem við búum við.

Einnig var gert ráð fyrir því að hafa tiltekinn aðlögunartíma sem snerti sérstaklega málefni héraðsdýralæknanna. Hann var settur inn í frumvarpið strax í upphafi og í meðferð málsins á þingi var ákveðið að lengja frekar í þessum aðlögunarfresti. Hins vegar virðist þetta vera túlkað af framkvæmdarvaldinu með öðrum hætti en vakti fyrir okkur sem sömdum frumvarpið á sínum tíma, það þarf örugglega að hyggja að því. Ég legg áherslu á að þessar breytingar sem verið er að gera mega ekki leiða til verri þjónustu dýralækna í hinum dreifðu byggðum (Forseti hringir.) og það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra.