139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

þjónusta dýralækna.

552. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hér hefur skapast um störf héraðsdýralækna hringinn í kringum landið en eins og fram kom mun starf þeirra breytast frá og með 1. nóvember 2011. Mikilvægt er í þessu tilviki að þjónusta dýralækna í landinu skerðist ekki. Þetta er, eins og kom fram í fyrra máli mínu, mjög viðkvæm og mikilvæg þjónusta í héraði og því er ég ánægður að heyra þá bjartsýni sem ríkir í máli hæstv. landbúnaðarráðherra en að hans sögn mun breytingin ekki hafa þau áhrif að þjónustan skerðist og við skulum vona að svo verði ekki.

Umræðan vekur upp mynd af annarri þjónustu sem tengist matvælaframleiðslu úti á landi og reyndar á landinu öllu, það er matvælaeftirlit, heilbrigðiseftirlit og reyndar fleira eftirlit af því tagi sem hefur að mörgu leyti verið mjög miðstýrt. Sérfræðingar að sunnan koma eiginlega út í héruðin til að sinna þessum verkum. Mig langar, frú forseti, að athuga hug hæstv. ráðherra til flutnings þessara verkefna heim í héruð vegna þess að þar eiga þau heima að mati þess sem hér stendur. Búa á til sambærileg svæði og við erum að búa til núna í sambandi við héraðsdýralæknana og treysta heimafólki til eftirlitsstarfanna. Þau eiga ekki að vera langsótt, ef svo má segja, fengin alla leið úr Reykjavík frá stórum stofnunum heldur eiga að vera síkvik heima í héraði. Þess vegna er áríðandi að vita skoðun hæstv. ráðherra á því hvar þessi þjónusta eigi heima til hliðar við eftirlitshlutverk héraðsdýralækna.