139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

bygging nýs Landspítala.

631. mál
[18:57]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög gott að fara yfir stöðuna. Það er ljóst að til þess að þetta verk geti farið af stað síðari hluta árs þarf auðvitað samþykki Alþingis að nýju þar sem menn geta farið yfir áform um hagræðingu sem á að vera fólgin í því að færa alla starfsemina, sem er núna — ég held að ég fari rétt með — á næstum 100 stöðum, að mestu á einn stað og menn geti sýnt fram á að fjárfestingarkostnaðurinn verði að mestu greiddur með einmitt þeirri hagkvæmni sem felst í því að vera einum stað. Hluti af því er auðvitað að bætt aðstaða mun minnka t.d. sjúkdómahættu, minni fjarlægðir og kostnaður við að fara með sjúklinga á milli staða og annað slíkt.

Það er líka rétt að þetta mál hefur verið skoðað mjög og er uppi á borðinu í samningum varðandi fjárfestingaráætlun fyrir ríkið, sem hluti af því með hvaða hætti hægt er að koma hjólum atvinnulífsins betur í gang og stuðla að aukinni atvinnu, sem er gríðarlega brýnt verkefni og ekki hvað síst undir mínu ráðuneyti, velferðarráðuneytinu, þar sem við vitum að kannski er stærsta velferðarmálið að ná að skapa atvinnu. Því eru bundnar miklar vonir við að þetta komist í gang. Ég sagði einnig að til viðbótar væri hugsanlegt að setja lagfæringuna á Grensás undir framkvæmdina og þó að það skili ekki beinni arðsemi með sama hætti og hitt gæti það verið afar hagkvæmt og líka skilað sér fyrr inn í þá þjónustu sem við veitum í dag.

Það er rétt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði hér að það er bæði fjárhagslegur og faglegur ávinningur af þessu. Það er líka rétt að þarna hefur verið unnið mjög faglega að málum í gegnum árin og ekki hvað síst núna þar sem er hópur sem vinnur mjög skipulega að þessu verkefni. Ég ber auðvitað þá von í brjósti að okkur takist að komast af stað með þessar framkvæmdir sem allra, allra fyrst.