139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[22:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég hafði nú hugsað mér að taka til máls undir þessum lið á dagskránni við 3. umr. en það sem ég vildi vekja athygli á er að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að tekjur þessa framkvæmdasjóðs séu m.a. 3/5 af svokölluðu gistináttagjaldi sem við vorum að ræða undir 17. lið á dagskránni en greidd voru atkvæði um það frumvarp við 2. umr.

Nú stendur til að taka til atkvæðagreiðslu við 3. umr. frumvarp um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þar sem gert er ráð fyrir að 3/5 gistináttagjalds renni í Framkvæmdasjóðinn. Ég vek athygli á því að það frumvarp hefur ekki verið samþykkt og þar af leiðandi er ekki sá grundvöllur til staðar sem þarf til að þetta frumvarp verði að lögum. Ég hefði þess vegna talið að fyrst þyrfti að gera frumvarpið um farþegagjald og gistináttagjald að lögum áður en hægt væri að afgreiða þetta.