140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

orkusala og atvinnusköpun.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er það bara þannig að það er ekki undir ríkisstjórninni komið hvort haldið verður áfram með álver í Helguvík eða ekki. Eins og hv. þingmaður veit mætavel þá stendur ekkert upp á ríkisstjórnina í því efni. Starfandi er gerðardómur sem er að meta ágreiningsmál sem uppi eru í þessu efni milli Norðuráls og HS Orku. Fyrr en sá dómur liggur fyrir er ekki vitað hvernig verður með Helguvíkina en ég vona sannarlega að af henni geti orðið.

Varðandi orkuna og Landsvirkjun, sem menn horfa stundum til í þessu efni, þá hafa menn breytt um stefnu frá því sem var áður fyrr. Það er Landsvirkjun ein og sér, án þess að stjórnvöld hafi nokkur afskipti af, sem tekur ákvörðun um það út frá viðskiptalegum sjónarmiðum hvernig hún afhendir og afgreiðir orkuna. Þannig er staðan.

Ég hef raunverulega engu meira við þetta að bæta en af því að hv. þingmaður hefur áhyggjur af atvinnumálum vil ég segja að það er mjög mikið í gangi í atvinnumálunum. Ég skal ekki endurtaka það sem ég hef sagt um þær opinberu og hálfopinberu framkvæmdir sem eru í gangi og verða á næstu missirum með öllum þeim fjölda starfa sem þar eru heldur hafa verið gerðir fjórir fjárfestingarsamningar auk Helguvíkursamningsins, tveir á Suðurnesjum, gagnaver og kísilver eins og hv. þingmaður veit, og tveir á Norðurlandi. Síðan eru í gangi opinberar og hálfopinberar framkvæmdir sem á næstu árum og missirum munu skila verulega inn í atvinnulífið.

Í lokin vil ég nefna það, af því að ég sá mér til mikillar ánægju þingsályktunartillögu frá framsóknarmönnum sem lögð hefur verið fram þar sem farið er inn á efnahags- og atvinnumál, að margt af því sem þar er reifað, (Forseti hringir.) m.a. um atvinnumál, er í gangi af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það er eins og Framsóknarflokkurinn hafi ekki verið að fylgjast með hvað hefur verið að gerast í atvinnumálum á undanförnum tveimur árum.