140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við anarkistarnir erum svo oft sammála. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, það er mjög gott að fá sérfræðinganefndina til að fara sínum sérfræðihöndum um þetta og klippa burt einstaka skavanka. Eins og hv. þingmaður hef ég auðvitað rekið augun í hortitti í tillögunum. Það eru dæmi sem hægt er að benda á þar sem eru innri mótsagnir. Þær eru ekkert mjög alvarlegar, það er kannski fyrst og fremst í greinargerðinni sjálfri þar sem maður sér málamiðlunina birtast því að þar er margt sem ég er ósammála þó að einungis sé um skýringar að ræða við miklu skilmerkilegri greinar.

Það væri mjög gott ef það væri hægt að ná upp umræðu um þessar tillögur meðal þjóðarinnar. Ég tel eigi að síður að töluvert mikil umræða hafi farið fram en sakna þess að sjá merki um að hv. þingmenn hafi kynnt sér tillögurnar. Ég hef lesið þær til þrautar og greinargerðina líka.

Ég tók eftir því þegar forseti Íslands hélt sína merku ræðu hér á þingsetningardegi og lagði út af þessum tillögum að — af því að ég er nú þannig landfræðilega staddur í salnum að ég horfist í augu við marga þingmenn — þingmenn urðu forviða við þegar hann túlkaði til dæmis kaflann um þingið og forsetann og hlutverk hans við stjórnarmyndun og Stjórnarráð. En allt það sem forseti Íslands sagði og túlkun hans er nákvæmlega eins og lesið af minni eigin bók. Ég dró nákvæmlega sömu ályktanir og forseti Íslands á því sem þar sagði. En það varð mér áhyggjuefni að síðan stigu fram nokkrir stjórnlagaráðsmenn og höfðu í fyrsta lagi mismunandi skoðanir á því hvernig bæri að túlka og í öðru lagi var meira en helft þeirra sem tóku til máls ósammála því sem forsetinn sagði. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að allt það sem hann sagði til dæmis um hlutverk forseta sé nákvæmlega það sem má lesa án nokkurrar skapandi hugsunar út úr tillögutextanum sjálfum. Það er auðvitað svolítið áhyggjuefni sem ég ætla nú ekki að inna (Forseti hringir.) hv. þingmann eftir afstöðu til, að stjórnlagaráðsmenn virðast ekki vera algjörlega í sama báti þegar róa á að skilningi á (Forseti hringir.) sínum eigin texta.