140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:48]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að geta fengið að taka þátt í umræðu um mál sem þetta þar sem allir eru svo sammála. Ég hefði hins vegar kosið að fleiri þingmenn væru viðstaddir umræðuna og létu skoðun sína uppi. Það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu er að þingið komi sér saman um það strax á fyrstu starfsdögum nýs þings hvernig við ætlum að fylgja þessu mikilvæga máli eftir. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að komin sé fram þingsályktunartillaga sem er ákveðinn vegvísir í þá vegferð og ég get í öllum megindráttum tekið undir þær áherslur sem þar eru fram settar.

Það er gríðarlega mikilvægt að strax í upphafi sé skýr farvegur og að bæði þing og þjóð séu meðvituð um hvernig fara eigi fram með þetta verkefni. Það er eitt stærsta ef ekki allra stærsta mál sem þjóðþingið hefur verið með í sínum höndum um áratugaskeið að mínu mati. Það er krafa þjóðarinnar að málið verði leitt til lykta á þessu þingi.

Við höfum, eins og komið hefur fram í umræðunni, unnið með undraverðum hraða í því að skapa þá tillögu að stjórnarskrá sem fyrir liggur og eiga allir mikla þökk skilið sem komið hafa að þeirri vinnu. Það sem verið hefur einstaklega ánægjulegt í þeirri vinnu allri er sá opni farvegur og sú aðkoma sem þjóðin hefur fengið að þeirri vinnu, bæði til að fylgjast með og til að koma ábendingum, athugasemdum og tillögum á framfæri.

Ég tel mjög mikilvægt að því verklagi verði fylgt fram í þeim áföngum sem eftir eru til að fullkomna verkið. Aðkoma þings og þjóðar þarf að vera tryggð að þessum lokaáföngum. Málið þarf að fara í efnislega umfjöllun og verður að tryggja það með góðu samkomulagi að það verði eitt helsta forgangsmál þingsins nú í vetur. Tímaramminn þarf að vera skýr, ekki til að setja svipuna á menn, heldur fyrst og fremst til að tryggja að sá tími verði nýttur sem best má vera sem við höfum fram undan til að geta komið verkinu frá okkur á tilskildum tíma með eðlilegri umfjöllun og aðkomu allra sem að því þurfa að koma á þeim tíma sem eftir lifir þessa kjörtímabils. Tryggja þarf að umræðan verði opin og gegnsæ.

Eins og ég nefndi áðan tel ég að sá vegvísir sem hér er settur upp um fyrirkomulag mála sé um margt mjög góður. Ég áskil mér allan rétt til að fara nánar yfir það og ræða það, enda hjó ég eftir því í máli 1. framsögumanns, hv. þm. Þórs Saaris, að hér væri í raun og veru verið að opna á umræðu um það hvernig útfærslan gæti svo orðið í nánari atriðum. Ég tel að mikilvægt sé að sú nýja nefnd sem taka mun til starfa á Alþingi, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, fái málið sem fyrst inn á sitt borð, eins og nefnt var fyrr í umræðunni. Mikilvægt er að ná þar breiðri samstöðu um þær útfærslur sem þurfa að vera varðandi yfirferð og endurmat eða heildstæða skoðun á því frumvarpi sem komið er í okkar hendur þannig að tryggt sé að þar séu ekki einhverjir hnökrar eða misvísanir í gangi, eins og við vitum að þarf stundum að laga í þeim efnum, og að skýrt sé um framhaldið og tímasetningu.

Auðvitað horfa menn til væntanlegra forsetakosninga sem verða í byrjun næstkomandi sumars. Tímann fram að því þurfum við að nota til að koma málum til þjóðarinnar. Við þurfum að ákveða hver útfærslan á því verður, t.d. með kosningu, eins og hér hefur verið nefnt, og hvort boðið verði upp á mismunandi afgreiðslur eða mat á einstökum liðum. Ég tel að það sé eitthvað sem muni að skýrast á næstu mánuðum í yfirferðinni þar sem hugsanlega mun koma fram einhver meiningarmunur í einstökum málum. Það er þá þingnefndar, í samráði við þá aðila sem vinna að þessu verki, að leggja valkostina fyrir. Við tryggjum síðan að það álit sem kemur út úr afgreiðslu og kosningu þjóðarinnar verði sá vegvísir sem þingið fær í hendur á næsta hausti til að fullkomna og klára þetta mikilvæga verkefni.