140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[15:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi verðtrygginguna, það má ekki gleyma því að sögulega séð hefur verðtryggingin ekki leitt til tjóns fyrir lántakendur heldur hefur kaupmáttur vaxið meira en verðtryggingin undanfarna áratugi.

Að því er varðar það hvort og að hvaða marki hægt er að leiðrétta forsendubrestinn og hvort við eigum að taka annan snúning í því er ég því ekki sammála. Niðurstaðan í fyrrahaust var alveg skýr; það verður ekki með neinum hætti létt á forsendubresti nema með því að annað tveggja verði gert, að almennir skattborgarar borgi kostnaðinn með sköttum sínum vegna þess að verið er að létta skuldum af þeim sem tóku lán og halda eftir eignunum sem standa þeim skuldum að baki, eða að lífeyrisréttindi eignalauss fólks séu gerð upptæk til þess að borga skuldir okkar sem tókum lán.

Ég er ekki þannig maður að ég vilji standa að annarri hvorri þeirri lausn. Það er engin önnur leið möguleg. Ég vil standa vörð um félagslegt réttlæti í þessu landi og ég sé enga leið til að leysa þann vanda sem hv. þingmaður nefnir sem ekki býr til meira félagslegt óréttlæti en þegar er orðið.