140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan að þetta mál snerist í reynd um tilvist Ísraelsríkis. Ég held að þar sé hoggið nokkuð nærri kjarnanum. Þetta snýst um það að stuðningsmenn Ísraels telja líklegt að þróunin á svæðinu geti stefnt öryggi Ísraels í hættu.

Gefum okkur að það takist að skapa þrýsting sem dygði til þess að það yrðu friðarviðræður og fullveldi Palestínu yrði viðurkennt og Ísraelsmenn drægju her sinn til baka, það yrðu kosningar og kosin ný ríkisstjórn. Palestínumenn segja að þeir vilji ekki hafa her, þeir hafa öryggissveitir, þær eru ekkert öflugar, en þeir hafa sagt annað, þeir vilja fá friðargæslu, friðarsveitir. Við mig, og hugsanlega sögðu þeir opinberlega: Við viljum fá NATO til þess að sjá um frið. Ég er ekki endilega að mæla fyrir því. En ég er sem sagt að benda hv. þingmanni á þann möguleika. Það eru ýmsar leiðir til að tryggja að element á jaðri Hamas, sem Hamas getur ekki haft stjórn á eða hugsanlega vill ekki við einhverjar aðstæður, sé hægt að koma fjötrum og böndum á. Það er alþekkt úr samskiptum þjóða þar sem menn koma á friði að þar koma þjóðir með friðargæslusveitir og stilla til friðar. Þetta hafa Palestínumenn sjálfir sagt.

Síðan fannst mér dálítið skondið, ég segi ekki fyndið, að hv. þingmaður segði að við ættum ekki að láta aðrar þjóðir segja okkur fyrir verkum en gerði svo margt úr því að ESB kynni að hafa einhverjar tilteknar skoðanir á þessu máli. Guð láti gott á vita, segi ég nú bara en ætla ekki út í það nánar. Hitt liggur alveg ljóst fyrir að þær þjóðir sem hann taldi hér upp eins og Danmörk, eða a.m.k. eins og Noregur, ég bæti þá við Danmörku, eru ákaflega nálægt okkar stöðu, samanber niðurstöðu í stefnuyfirlýsingu nýju dönsku stjórnarinnar, (Forseti hringir.) sömuleiðis ákveðnar yfirlýsingar Jonasar Gahr Støres. Þau fimm atriði sem hv. þingmaður taldi upp í ræðu sinni — ég þori ekki að fullyrða hversu mörg eru uppfyllt nú þegar en ég held að minnsta kosti þrjú, hugsanlega fjögur.