140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vakti athygli á því að mörg önnur þjóðríki og líka Evrópusambandið með utanríkisráðherra sinn hafa viljað aðra nálgun en ráðherrann hefur nú mælt fyrir. Fjölmörg þeirra eru ekki tilbúin að taka þetta skref. Það segir mér að einhver sjónarmið mæli gegn því að þetta sé gert á þessum tímapunkti ólíkt því sem ráðherrann sagði í máli sínu, að það væri beinlínis ekkert sem mælti gegn því. Þannig talaði ráðherrann þegar hann kynnti tillöguna áðan. (Gripið fram í.) — Engin efnisleg, gott og vel.

Ég vakti athygli á því að Evrópusambandið, sem ráðherrann hefur lagt mikla áherslu á að Ísland gangi til liðs við, hefur að svo miklu leyti sem það hefur sameiginlega utanríkisstefnu í þessu máli ekki komið sér saman um að gera þetta. Það hlýtur að vekja menn til umhugsunar. Ég er ekki að segja að menn eigi að elta alltaf það sem aðrir gera, en ég vek athygli á þessu til að fá öll sjónarhorn á málið. Þetta er nokkuð sem við hljótum að horfa til og velta fyrir okkur.

Um stöðu Ísraelsríkis og um sjónarmið Ísraela er mjög fróðlegt, til þess að kynna sér þeirra hlið á málinu, að lesa ræðu Benjamins Netanyahus sem hann flutti á Bandaríkjaþingi 24. maí á þessu ári þar sem hann fór yfir það að deilan á þessu svæði hefur allan tímann snúist um tilvist Ísraelsríkis. Það er staðreynd málsins. Friðarferlið og friðarviðræðurnar hafa alltaf snúist um það að fá óvinveitta aðila Ísraelsríkis til að leggja niður vopn og vinna að friði á svæðinu. (Forseti hringir.)

Í síðasta andsvari mínu kom ráðherrann loksins inn á það sem mér finnst að sé meginatriðið, sem er þetta: (Forseti hringir.) Hvernig getum við unnið (Forseti hringir.) að friði á svæðinu?