140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:53]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Það kann mörgum að þykja leiðin löng frá Reykjavík til Eskifjarðar. Við förum jú yfir Kambana, austur allt Suðurlandið, undir Vatnajökul og upp með Lóni og komum að Austfjörðum og endum þessa leið á Eskifirði. Það eru 702 kílómetrar, það tekur heilan vinnudag að aka þessa leið. Múrinn sem Ísraelsmenn eru búnir að reisa umhverfis palestínska þjóð er 702 kílómetrar, sem svarar leiðinni frá Reykjavík til Eskifjarðar, heilli dagleið á löglegum hraða með bíl.

Það er búið, þvert á alþjóðalög, herra forseti, að múra heila þjóð inni. Alþjóðasamfélagið gerir fátt. Ekki sendir það heri sína inn í landið eins og gert var á Balkanskaga fyrr á tíð. Nei, menn sitja enn á fundum og álykta og reyna að grafa þennan óhugnað í skjölum og skrifborðsskúffum. Á meðan lengist múrinn, hann mun verða 760 kílómetrar, 8 metra hár, með alla vega gaddavírsflækjum í kring svo að þjóðin sem þarna býr á í miklum erfiðleikum með að komast áfram með sitt daglega líf svo að eðlilegt sé.

Herra forseti. Ég vil nefna sögu frá litlum bæ á Vesturbakkanum sem heitir Kalkilía. Þar búa um 70 þúsund manns, liðlega 40 þúsund í bænum sjálfum og 30 þúsund í litlum þorpum í kring. Þessi litli bær, Kalkilía, er á herteknu svæðunum um tólf kílómetra frá Miðjarðarhafsströndinni en íbúar sjá hvorki til sjávar né geta farið á ströndina sakir þessa átta metra háa ferlíkis sem múrinn er í kringum bæinn.

Hvað hefur þessi múr, sem hafist var handa við að byggja árið 2002, í óþökk allrar heimsbyggðarinnar nema ef vera kynni Bandaríkjamanna, þýtt fyrir íbúana í Kalkilíu? Ég nefni þetta, herra forseti, til að minna á að bak við þessa þingsályktunartillögu, sem ég fagna mjög, er fólk. Það fólk horfir á þennan múr dagsdaglega í kringum sig. Og hvað þýðir þessi múr? Hann þýðir að bændur í Kalkilía þurfa að fara kvöldinu áður á akra sína, ná þar í grænmetið sitt og tína af ólívutrjánum, og þurfa síðan að gista á ökrum sínum til morguns svo að þeir hafi tíma til að fara um hlið Ísraelsmanna inn á markaðinn og komast þangað með afurðir sínar í tíma.

Venjulegir bændur í Kalkilía og reyndar í fleiri bæjum á herteknu svæðunum þurfa sem sé að gista á ökrunum sínum svo að þeir komist í tæka tíð í gegnum hliðið á markaðinn með afurðir sínar. Þetta er hlutskipti ótölulegs fjölda fólks á herteknu svæðunum sem stækka og stækka og þrengjast og þrengjast og fyrir vikið verður lífið ömurlegra og ömurlegra — 702 kílómetrar, öll leiðin frá Reykjavík til Eskifjarðar, 8 metra hár múr með gaddavírsflækjum svo að menn komist illa eða ekki leiðar sinnar. Þetta er hlutskipti sem við hljótum að mótmæla, sem sjálfstæð og fullvalda þjóð hljótum við Íslendingar að mótmæla framferði af þessu tagi. Við getum ekki sætt okkur við að nokkur önnur þjóð múri aðra inni í bókstaflegum skilningi. Og það er að gerast dag eftir dag, viku eftir viku, ár eftir ár án þess að nokkuð gerist. Þetta sem ég sagði síðast, herra forseti, er kannski mergurinn málsins. Mun þetta ekki einmitt halda áfram? Mun ekki múrinn eyðileggja líf Palestínumanna enn frekar en orðið er á næstu árum vegna þess að annað tveggja blasir við, Ísraelsmenn hafa engan áhuga á að semja við Palestínumenn um landamæri, hvað þá landamærin fyrir árið 1967, og hitt er svo augljóst að alþjóðasamfélagið með verkum sínum ætlar sér ekki að stöðva þetta svo sem dæmin sanna frá síðustu árum.

Hvað eru Ísraelsmenn að gera, Ísraelsmenn sem við Íslendingar viðurkenndum til sjálfstæðis einna fyrstir þjóða árið 1948? Þeir eru að beita sömu aðferðunum og hvíti minni hlutinn í Suður-Afríku gerði á sínum tíma og kallað var einu orði „bantustan“. Þeir búa til fullt af sjálfsstjórnarsvæðum á löndum Palestínumanna rétt eins og hvíti minni hlutinn í Afríku gerði á sínum tíma, bjuggu til hvert „bantustan“ af öðru og komu svo á vegum þvers og kruss milli þessara sjálfsstjórnarsvæða þannig að meiri hluti blökkumanna í landinu gat illa eða ekki komið sér áfram til vinnu, akra sinna, skóla, heilsugæslu o.s.frv.

Aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku, sem við Íslendingar — ég held nær allir, ef ekki allir — fordæmdum með kröftugum hætti, er leyfð í Palestínu. Bantustan er staðreyndin í Palestínu, þar eru Ísraelsmenn með kerfisbundnum hætti að koma í veg fyrir eðlilegt mannlíf, skólasókn, markaðssókn og almennt líf á því svæði sem alþjóðasamfélagið hefur ítrekað samþykkt að eigi að vera alþjóðalögum samkvæmt land Palestínumanna.

Herra forseti. Menn spyrja mjög í þessari umræðu: Eru Palestínumenn tilbúnir til að hætta sínum glæpum? Sumir sem hér hafa komið í pontu Alþingis vegna þessarar umræðu leggja mjög mikla áherslu á þann punkt: Eru Palestínumenn hættir, vilja þeir láta af sínum glæpum? Auðvitað á líka að spyrja: Munu Ísraelsmenn einhvern tíma vera tilbúnir til að hætta við sína glæpi? Ég tel að ef alþjóðasamfélagið svarar ekki viðbjóðslegri kúgun Ísraelsmanna á venjulegu fólki í Palestínu muni þeir halda áfram stríðsglæpum sínum í Ísrael og Palestínu. Þeir munu halda áfram að hertaka palestínskt landsvæði, þeir munu halda áfram að girða af venjulegt fólk eins og bóndann nálægt Jerúsalem sem þarf að fara upp undir 30 kílómetra á akur sinn vegna þess að búið er að byggja múr í 360 gráður í kringum húsið hans. Þetta væri svipað og bóndinn á Brúnastöðum, sem þyrfti að fara rétt fyrir götuna á akur sinn, þyrfti að fara alla leið til Hellu til að komast á sinn akur. Þetta er hlutskipti sem blasir við og við verðum með þessari tillögu, sem ég fagna eindregið, að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að stríðsglæpum Ísraelsmanna linni og báðir aðilar láti af ófriði sínum, Palestínumenn vissulega en ekki síst þeir sem fara nú um stundir með mestum ófriði í þessum heimshluta, Ísraelsmenn sjálfir