140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[18:03]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Ég fagna þessu máli mjög. Þessi þingsályktunartillaga ber merki um kjark og réttsýni sem ræður för hjá hæstv. utanríkisráðherra og flestum sem hafa talað hér í dag, ekki samt öllum.

Það er fyrir löngu tímabært að Palestína verði sjálfstætt fullvalda ríki innan sinna landamæra. Hægt er að hafa hér mörg orð um tilurð Ísraelsríkis og upphaf þeirra deilna sem enn sér ekki fyrir endann á nærri 70 árum síðar, en ábyrgð Íslendinga í þessu máli er mikil og hún er alveg frá upphafi málsins 1947. Það er því gott að hafa utanríkisráðherra á Íslandi sem skilur að ábyrgðin er einnig Íslendinga og að hún er mikil.

Á sínum tíma gáfust menn upp á því að reyna að stofna Ísraelsríki vegna þess að þeir vissu að ófriður mundi fylgja í kjölfarið. Sumir segja að Íslendingum hafi þá verið att á foraðið og fengnir til að taka að sér þetta verk. Aðrir segja að það hafi borið vitni um áræði manna að þora að leggjast í það. Engu að síður var Ísraelsríki stofnað og það var frá upphafi gert á röngum forsendum. Um það má að sjálfsögðu hafa langt mál en vegna þessa eru þessar deilur enn þá í gangi.

Sjálfur ólst ég upp við talsvert mikla aðdáun á Ísraelsríki á sínum tíma og dáðist að dugnaði og eljusemi þeirra við að breyta sandauðnum í akra og gera Ísrael að einhvers konar nútímaríki. Það var ekki fyrr en árið 1987 er ég var í námi i Bandaríkjunum þar sem ég hlýddi á fyrirlestur palestínskrar konu um ástandið á herteknu svæðunum og í Palestínu að ég fór að sjá af alvöru hina hliðina á málinu og síðan hef ég fylgst mjög náið með framvindu mála í þessum heimshluta.

Ég hef verið svo lánsamur að koma til Palestínu, þar sem menn almennt kalla Vesturbakkann, og sjá þá ólánsömu þjóð sem þar býr. Ég hef líka verið svo lánsamur að koma til Ísraels og sjá þá ólánsömu þjóð sem þar býr. Ástandið þarna er sorglegra en tárum taki en engu að síður er þróun mála á þessu svæði komin á það stig, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði áðan, að það stefnir í einhvers konar endalok þessa ferlis ef ekki fer að nást sátt um tveggja ríkja leið.

Framferði Ísraelsmanna undanfarin ár og áratug og sú landtaka eða landrán sem þeir hafa haft í frammi á landi Palestínumanna er eins ósiðleg og hægt er að hugsa sér. Framferði PLO í langan tíma var hræðilegt og fordæmanlegt, hryðjuverk eru einfaldlega ömurleg og ógeðsleg aðferð til að reyna að ná fram markmiðum sínum. Því tímabili er hins vegar lokið og menn sitja uppi með það að þrátt fyrir útrétta sáttarhönd Palestínumanna í mjög langan tíma er slegið á hana af Ísraelsmönnum. Enginn vilji af hálfu Ísraelsmanna er sjáanlegur til að ná friði í þessum heimshluta, það sýna einfaldlega gjörðir þeirra. Allar ræður forsætisráðherra Ísraels um annað eru fyrir lifandis löngu orðnar ómarktækar og hann er ómerkingur þegar hann opnar munninn um frið í þessum heimshluta.

Ísraelsmenn eru að murka lífið úr Palestínu og kæfa fæðingu þess og því má velta upp af fullu réttmæti hvort Ísraelsmenn séu einfaldlega ekki sekir um glæpi gegn mannkyni. Ég veit ekki hvort svo er en framferði þeirra í þessum heimshluta heldur áfram að vera slæmt og versna ef eitthvað er.

Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi eins og fram hefur komið í máli mínu að ekki sé hægt að ræða af neinu viti við Ísraelsmenn í þessu máli nema í gegnum einhvers konar harðari stefnu, því miður. Það er einfaldlega fullreynt. Þar skipta þjóðir eins og Bandaríkin og ýmsar Evrópuþjóðir mjög miklu máli og það er líka dapurlegt að horfa upp á hversu einhliða afstaða Bandaríkjamanna er og hefur alla tíð verið í þessum deilum. Vonandi verður þetta skref sem við erum að stíga með þessari þingsályktunartillögu til þess að opna augu fleiri fyrir því að sjálfstætt ríki Palestínumanna og fullvalda ríki er fyllilega réttlætanlegt og eðlilegt og að það muni og geti lifað í sátt og samlyndi við Ísrael. Þetta er held ég eina leiðin sem eftir er.

Ég hef fylgst með friðarviðræðum, svokölluðum, Ísraelsmanna og Palestínumanna í mjög langan tíma. Ég hef heyrt ræðurnar og ég hef hlustað á málflutninginn og síðan hef ég séð með berum augum efndirnar og ætlunina sem var alls ekkert í samræmi við þau orð. Það er ömurlegt að vita til þess að búið sé að reisa þarna, eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson bendir á, 702 km langan og 8 m háan múrvegg. Slíkt framferði getur ekki annað en verið þyrnir í augum allra mennskra manna.

Vonandi náum við á Alþingi Íslendinga — og sjálfstæðismenn, því að mér heyrðist á málflutningi hv. formanns Sjálfstæðisflokksins að hann sé ekkert endilega mjög ginnkeyptur fyrir þessari tillögu — vonandi nær Alþingi einróma að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og fylgja henni svo úr hlaði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og á vettvangi alþjóðasamfélagsins með hæstv. utanríkisráðherra í broddi fylkingar. Það væri glæsilegt og það er þarft.