140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[18:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þróttmikinn og málefnalegan þátt í umræðunni í dag. Hér hafa menn velt upp mörgum spurningum sem allar eru að mínu viti málefnalegar og fullkomlega lögmætar inn í þessa umræðu.

Fyrst, til að afgreiða spurninguna sem hv. þm. Kristján Möller varpaði til mín áðan. Það er engin sérstök tímapressa á því hvenær þessi tillaga verður afgreidd. Eins og jafnan áður er ég algjörlega skýr á þeim mörkum sem eru á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og ég gef utanríkismálanefnd engar fyrirskipanir um það með hvaða hætti hún hagar störfum sínum við rannsókn þessa máls. Þó hef ég sagt hér í dag að ég tel að það sem menn eigi að leggja til grundvallar þegar þeir velta þessu fyrir sér sé í fyrsta lagi sú afstaða til málsins sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson var með þegar hann tók saman sitt eigið mál eftir að hafa spurt: Eiga menn að taka afstöðu til þessa með hjartanu eða með rökum? Menn eiga að gera hvort tveggja og rannsóknarspurningin er þessi: Getur samþykkt þessarar tillögu með einhverjum hætti skaðað friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafsins? Ég tel að svarið sé mjög afdráttarlaust nei. Ég er þeirrar skoðunar.

Svo að ég lýsi aðeins viðhorfum mínum gagnvart stöðu Ísraels, þá tel ég að núna sé u.þ.b. síðasta lestin til friðar að fara af stöðinni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ákaflega brýnt fyrir stöðu þeirra, til að tryggja öryggi þeirra til frambúðar, að gengið verði í það að viðurkenna Palestínu af alþjóðasamfélaginu og aðstoða það við fyrstu skrefin sem fullvalda og sjálfstætt ríki. Um leið yrði gert friðarsamkomulag sem byggist á landamærunum eins og þau voru fyrir 1967. Ég er sammála því sem hefur komið fram hjá ýmsum þingmönnum að það er nauðsynlegt að forsvarsmenn Palestínuríkis gefi þá skýra yfirlýsingu að þeir stefni að friðsamlegri sambúð og hafni vopnuðum átökum. Það er nákvæmlega það sem Abbas forseti og þeir hafa lýst yfir opinberlega, skriflega, jafnt heima fyrir og erlendis.

Það er ljóst að þeim er mjög mikið í mun að ná friði. Það er líka það besta sem getur komið fyrir Ísrael. Af hverju? Vegna þess að þróunin í löndunum í kring þar sem hafa verið miklar lýðræðisbylgjur og frelsisvindar er ekki líkleg til þess að verða þeim hagstæð. Við sáum það, eins og hér hefur verið rifjað upp, að Mubarak í Egyptalandi er fallinn. Ísraelsmenn gerðu við hann friðarsamkomulag sem var með þeim hætti að það er mjög ólíklegt að nokkur ríkisstjórn sem kosin er með lýðræðislegum hætti í Egyptalandi muni nokkru sinni gera slíkan samning. Það er líklegt í löndunum í kring einmitt vegna þess ef maður horfir til þess hver er aflvaki þeirra byltinga sem þar fara yfir, ungt fólk, konur, það er ekki bandalag múslima, þetta er aflvakinn og þetta fólk er að krefjast aukinna réttinda vegna þess að það er í færum með að sjá hvernig slík réttindi eru í öðrum löndum, einmitt eins og hv. þm. Kristján Möller sagði áðan, í krafti nýrra samskiptamiðla. Þetta fólk er gríðarlega ríkt af umhyggju gagnvart Palestínu. Við sáum það ekki alls fyrir löngu þegar egypsk stjórnvöld þurftu að senda herlið til að skakka leikinn þegar alþýða manna réðst á sendiráð Ísraels í Kaíró. Það er ákaflega líklegt að það komi upp miklu sterkari stuðningur við Palestínumenn en hefur komið fram hjá þeim einræðisherrum sem af ýmsum orsökum hafa heldur legið á sínu liði ef þörf hefur verið á. Nefni ég t.d. að Egyptar voru ekki liðlegir í tíð Mubaraks gagnvart innflutningi um egypsku landamærin.

Þess vegna segi ég að þessi tillaga eykur líkur á friði. Ísland er auðvitað lítið land og ég sagði alveg skýrt hérna áðan að ég geri ekki ráð fyrir að samþykkt þessarar tillögu muni brjóta einhvern ís. En ef fleiri þjóðir færu að okkar dæmi mundi þrýstingurinn aukast á Ísraelsmenn til að taka þátt í friðarferlinu. Hvað er það sem hefur stoppað það aftur og aftur og aftur? Jú, það er alveg ljóst að Ísraelsmönnum virðist einfaldlega ekki í mun að ná þessum friði. Ef hann næst verða þeir að fara með hersveitir sínar út úr Palestínu. En kom það ekki skýrt fram í ræðu hjá tveimur æðstu forustumönnum Ísraels á síðustu tveimur mánuðum að þeir telja að það sé ekki hægt að fallast á að Palestína verði sjálfstæð nema þeir hafi áfram herstyrk innan landamæranna til að verja sig? Það er svo algjörlega fráleitt að halda þessu fram. Það er í fyrsta lagi þetta. Í öðru lagi að þeir hafa jafnan þegar friðarferli hefur verið á skriði gripið til þess ráðs að henda grjóti í gangverkið sem felst í því að taka upp fyrri hætti um landrán, sem ég kýs svo að kalla. Bara í síðustu viku þegar kvartettinn, þ.e. Rússar, Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og Evrópusambandið, reyndu að koma friðarferlinu aftur af stað þá komu Ísraelsmenn til skjalanna og lýstu yfir nýju landráni í Austur-Jerúsalem og heimiluðu byggingar 1.100 nýrra íbúða eða húsa á landsvæði sem Palestínumenn eiga. Þeir vita að það er mjög erfitt fyrir Palestínumenn að standa í langdregnum friðarviðræðum á sama tíma og það er verið að ræna þá landinu. Þetta er mikilvægt að menn skilji.

Hv. þingmenn hafa, og einkum og sér í lagi hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson og það er ekki óeðlilegt af hans hálfu, velt fyrir sér stöðu Hamas. Við skulum segja það að Hamas séu samtök skúrka, eins og stóra kaupfélagið hefur skráð það, þ.e. Evrópusambandið, og þá ber að hafa það í huga að Hamas hefur tiltölulega sterkt forræði á litlu svæði en þar búa þó 1,7 millj. manna. Hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins lýsti því á stærð við Þingeyjarsýslur, ég hugsa að það sé rétt hjá honum. Þá ber okkur að spyrja: Hefur það gerst einhvern tíma að Ísland hafi haft stjórnmálasamband við ríki sem hefur það beinlínis á stefnuskrá sinni að ryðja Ísrael í hafið og eyða því? Já. Hefur það gerst að Ísland hafi jafnvel tekið upp stjórnmálasamband við ríki sem hefur þetta að yfirlýstu markmiði, með öðrum orðum hafa Íslendingar vitandi vits tekið upp stjórnmálasamband við ríki sem hefur lýst þessu yfir? Svarið er já, Íran. Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson á því að rifja upp hvaða stjórnmálamaður það var sem gerði það eða í hvaða flokki hann var formaður.

En svona verða menn einfaldlega að vega rökin og reyna að sjá hvort sú staðreynd að Hamas eru samtök sem eru ekki mjög hrifin af friði við Ísrael og sömuleiðis að innan vébanda þeirra, alveg eins og PLO á sínum tíma, eru hópar sem ekki er hægt að stjórna. Arafat lagði allt í sölurnar til þess að koma í veg fyrir vopnuð átök þegar hann lýsti yfir vopnahléi af hálfu PLO. Það gekk ekki alltaf. Gleymum því ekki, alveg eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson benti auðvitað réttilega á áðan, að utan Palestínu eru bæði samtök eins og Hizbollah og stórveldi eins og Íran sem hafa hag af því að viðhalda þessari spennu. Ég mundi ekki telja að það væri mikil lygi ef því væri haldið fram að t.d. Íran fjármagnaði þessa hópa eða sendi þeim vopn. Hins vegar, af því að ég ber virðingu fyrir Mossad, leyniþjónustu Ísraela, og veit hvers hún er megnug þá veit hún alltaf þegar einhver vopn eru send um göngin og þau eru jafnan sprengd. Önnur göng eru látin í friði.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson velti því upp hver yrði staða flóttamanna sem búa utan Palestínu. Þeir eru 5–6 milljónir. Þeir búa í Jórdaníu, í Sýrlandi, víða. Ja, hún versnar ekki við þetta. Gleymum því ekki þegar hv. þingmaður spyr: Hvað verður þá um þeirra rétt? Þeir fá ekki að snúa aftur til síns heima vegna þess að upprunaleg heimkynni þeirra, a.m.k. margra þeirra, voru innan núverandi landamæra Ísraels. Þetta hafa Palestínumenn samið frá sér. Þær upplýsingar sem liggja fyrir um hvað þeir eru reiðubúnir til að fallast á er sáralítill flutningur flóttamanna til sinna heimkynna. Það er hið dapurlega í þessu máli.

Frú forseti. Enn á ný vil ég þakka hv. þingmönnum fyrir mjög góða og málefnalega þátttöku og hvet þá til þess að skoða þetta mál og velta við öllum steinum.