140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

um fundarstjórn.

[11:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég skal svara því með einföldum hætti. Það er vissulega gott af þinginu að semja um mál en fyrst og fremst á þingið að ræða mál, færa fram rök og andrök, velta fyrir sér málamiðlunum, árangri og niðurstöðum af þeim málum sem þar eru sett fram. Það er ekki nóg að málin séu rædd í þingnefnd heldur á að ræða þau í þingsal meðan menn hafa þau rök og andrök sem til þarf.

Þetta var til dæmis gert með annað mál hér á dagskrá, ráðstafanir í ríkisfjármálum. Búið er að ræða það núna í þrjá daga, vonandi vel og ágætlega, og er komin niðurstaða í það og ákveðnir samningar um lok þess.

Ég er ósköp einfaldlega að segja þetta: Þingmenn og almenningur og þeir sem voru beðnir að leggja inn umsagnir um þetta mál eiga skilið að þær verði ræddar, að rök séu lögð hér á borðið í þingsal. Ég verð að viðurkenna að ég tel ekki mjög heppilegt að gera það á síðustu dögum þingsins fyrir jól, en ef það er niðurstaða manna að gera það þá það.

Um samkomulagið er það að segja að ég lýsti því yfir fyrir mína hönd og (Forseti hringir.) annarra hér í september að ég væri ekki partur af neinu slíku samkomulagi og sú yfirlýsing gildir enn.