140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:06]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Neftóbak er bannað víðast hvar og helst hefðum við átt að ná samstöðu um að banna neftóbak á Íslandi. Reyndar héldum við að það væri óþarfi. Við héldum að þetta yrði úrelt fyrirbæri og að þessir gömlu góðu neftóbakskarlar mundu falla eins og eðlilegt er að lokum. [Hlátur í þingsal.] En því miður hefur neftóbaksneysla stóraukist á Íslandi. Það eru ungir drengir sem eru að setja neftóbakið á vitlausan stað, þ.e. í munninn. 20% ungra drengja nota neftóbak í dag. Þetta er mjög alvarlegt. Tannlæknar hafa varað við þessu. Þetta eykur mjög líkur á krabbameini í munni, hálsi, brisi o.s.frv. Það er því ábyrgðarhluti að leyfa neftóbaksneyslu í landinu. Ég styð þessa hækkun á gjaldinu þó að ég hefði helst viljað banna þessa notkun með öllu eins og gert er víðast hvar annars staðar.