140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Skattar geta oft orðið skrýtnir. Hér er um að ræða gistináttaskatt. Verið að taka út aðila eins og stéttarfélög og aðra slíka þannig að þeir þurfa ekki að greiða skattinn. Aðili í ferðaþjónustu benti mér á að það væri ákveðin kaldhæðni í því að ef fjölskylda gistir í hótelherbergi eða tjaldi þarf hún að greiða mun lægra gjald en hún greiðir í skála, a.m.k. hjá einkaaðilum. Hann rekur ferðaþjónustu sem býður bæði upp á tjaldstæði og skála. Nú horfir hann fram á það, virðulegi forseti, að ef kalt er í veðri er það ekki einungis vont fyrir fólkið að því leyti til að það þarf að fara í skálann, heldur hækkar skatturinn úr 100 kr. á nótt á hverja fimm manna fjölskyldu upp í 500 kr. Þetta er svona dæmi um hvernig skattar virka þegar ekki er vel hugsað út í mál.