140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Í upphafi nýs árs er öllum hollt að líta um farinn veg og skoða hvað hefur tekist vel til og hvað betur hefði mátt fara. Það er líka nauðsynlegt að horfa fram á veginn og setja sér markmið og fylgja eftir þeim málum sem brýnt er að klára. Það á jafnt við um einstaklinga, fyrirtæki og heimili og hið háttvirta Alþingi og ríkisstjórn landsins. Okkur hættir oft til að draga fyrst upp allt hið neikvæða og það sem miður fer, en gleyma að það eru góðu hlutirnir sem eru hvatning til að gera enn betur. Á þeim þarf að byggja ef við ætlum að komast eitthvað áfram, en ekki hjakka í svartsýnisgírnum og spóla okkur niður þar föst í bölsýni og bölmóði og láta úrtöluraddirnar ráða ferðinni.

Ég tel vera fullt tilefni fyrir þjóðina að gleðjast í upphafi nýs árs. Það er ljóst að erfiðast kaflinn er að baki í sársaukafullum aðgerðum vegna hrunsins. Það eru nýir og breyttir tímar og vonandi betri tímar fram undan. Ný kynslóð lærir af reynslunni og leggur áherslu á sjálfbærni, jöfnuð, réttlæti og velferð, en ekki græðgi og sérhagsmuni sem einkenndi árið 2008.

Skiljanlega kveinka margir sér undan afleiðingum hrunsins, annað væri skrýtið. Þegar þú kemur að heimili þínu í rúst verða fyrstu viðbrögðin afneitun, sorg og reiði, en að lokum sérðu að það er ekkert annað í boði en að hefjast handa og reisa það að nýju með tilheyrandi fórnum og kostnaði og erfiði. Nákvæmlega það sama á við um þjóðarbúið okkar í þessu samhengi. Við áttum engan annan kost og eigum engan annan kost en að endurreisa það þó að það kosti okkur erfiði og sársaukafullar aðgerðir. Það mun skila sér og við höfum náð gífurlegum árangri á stuttum tíma.

Skattar eru eitur í beinum margra frjálshyggjupostula. Fyrir hrun hafði þróunin orðið sú að skattbyrði lækkaði hlutfallslega á hátekjufólk, en hækkaði á lágtekju- og meðaltekjufólk. Samfélagslegur ójöfnuður jókst hröðum skrefum en með skattkerfisbreytingum hefur tekist að snúa þeirri óheillaþróun við og lágtekjufólk greiðir lægra hlutfall af tekjum sínum í skatta en áður var. Við skulum muna að réttlátir skattar eru ekkert annað en ávísun á velferð og jöfnuð og framkvæmdir og uppbyggingu í þjóðfélaginu.

Það telst góður árangur að hafa náð fjárlagahalla ríkissjóðs úr 216 milljörðum árið 2008 í 46 milljarða fyrir árið 2011 og í 20 milljarða halla á þessu ári, eins og í stefnir. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Það telst góður árangur að kaupmáttur launa heldur áfram að aukast. Það telst góður árangur að atvinnuleysi hefur farið úr 12% niður í rúm 7%, en áfram skal barist við atvinnuleysisdrauginn. Það verður að teljast góður árangur að 27 milljörðum skuli varið í launa- og bótahækkanir á þessu ári þrátt fyrir erfiða glímu við ríkishallann. Það telst góður árangur að persónuafsláttur er nú að fullu verðtryggður; það treystu menn sér ekki til að gera þegar smjör draup hér af hverju strái fyrir hrun, eins og sumir héldu fram. Það telst góður árangur að hægt er að greiða 18 milljarða í vaxtabætur á þessu ári. Það telst góður árangur og varnarsigur við erfiðar aðstæður að tekist hefur að verja grunnstoðir heilbrigðiskerfisins. Það telst góður árangur sem náðst hefur í niðurfærslu íbúðalána og endurskipulagningu skulda fyrirtækja. — Þannig mætti áfram telja, en ég veit að bjartsýnir og sanngjarnir þingmenn stjórnarandstöðunnar munu halda öllum þessum góðu verkum á lofti og ekki bara þeim sem ég hef nefnt hér.

Mörgum verkum er þó ólokið á þessu kjörtímabili. Þá vil ég sérstaklega nefna nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda og nýja stjórnarskrá.

Breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu er mér hjartans mál. Af hverju? Jú, vegna þess að ég hef horft upp á að það hefur leikið margar byggðir grátt og gallar þess og óréttlæti hafa birst í sinni tærustu mynd á því landsvæði sem ég þekki best til.

Ég tel mjög nauðsynlegt að farið verði í rannsókn á kvótakerfinu og áhrifum þess, því að þræðir þess kerfis lágu um viðskiptalífið eins og mál hjá sérstökum saksóknara hafa sýnt fram á. Við verðum að horfa til sjávarbyggðanna þegar við breytum kvótakerfinu. Það verður ekki allt mælt í krónum og aurum. Á bak við tölur og hagræðingarkröfur er líf fólks, framtíð og búsetuskilyrði sem horfa verður til (Forseti hringir.) þegar heildarmyndin er skoðuð.