140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Það er ljóst að opinberir starfsmenn verða að láta af störfum við 70 ára aldur eins og nú er — þá er bara full-stopp. Hér er bent á það að lyfsöluleyfi fellur niður í lok þess árs sem leyfishafi verður 70 ára, en síðan má reyndar framlengja það í eitt ár í senn. Það er ljóst að þarna er um ákveðið ósamræmi að ræða. Slík ákvæði hafa ekki verið í læknalögum. Til þess að gæta einhvers samræmis eru þessar takmarkanir settar hér inn.

Ég vil þó árétta að ekki er verið að klippa á það að heilbrigðisstarfsmenn geti unnið eftir 70 ára aldur. Það er ekki verið að segja að þeir eigi að hætta störfum, heldur að þeir hætti að reka eigin starfsstöð, bera ábyrgð á eigin starfsstöð, en þó ekki strax við 70 ára aldur heldur er heimilt að framlengja það þrisvar sinnum um tvö ár í senn fram til 76 ára aldurs.

Það er rétt að landinn verður sprækari og ég tala nú ekki um með öllu því viðhaldi sem nú tíðkast á mannslíkamanum, hvort heldur eru mjaðmaliðir eða hnjáliðir. Menn geta unnið lengur kannski þess vegna. Þeir geta líka notið lífsins betur eftir þau aldursmörk sem hér um ræðir. Ég tel að það sé ekki ósanngirni fólgin í þessu, og þetta sé bara sjálfsagt og eðlilegt, enda hafa ekki komið fram miklar athugasemdir við þetta.