140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þessi umræða fer af stað, eins og við mátti búast eftir að ákveðið var að fara þá leið að færa kosti þarna á milli flokka.

Ég er einn af þeim fjölmörgu sem hafa margt að athuga við niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar. Ég vil þó þakka verkefnisstjórninni og þeim sem unnið hafa að málinu í öll þessi ár fyrir að leggja sig fram við að ná þessum tillögum eins góðum og mögulegt var. Það þýðir hins vegar ekki að við þurfum að vera sammála þeim niðurstöðum og það þýðir heldur ekki að við getum ekki gagnrýnt verkefnisstjórnina eða vinnuferlið. Það er eitthvað sem við munum að sjálfsögðu þurfa að skoða betur þegar farið verður ofan í málið og ég vona að atvinnuveganefnd gefi sér tíma til að fara yfir ferlið, kynna sér hvernig einstakir hópar störfuðu og slíkt því að það skiptir miklu máli þegar endanleg afurð er samþykkt.

Ég er sammála þeim sem hafa gagnrýnt það að svo virðist sem skoðanakönnun sú sem gerð var innan verkefnisstjórnarinnar hafi mikið vægi í þessari þingsályktunartillögu. Eftir því sem ég best veit var sú könnun gerð þannig að þessir ágætu einstaklingar lögðu sitt persónulega mat á hvar hver nýtingarkostur ætti að lenda. Og það er vitanlega persónulegt mat. Þetta ágæta fólk er kannski betur til þess fallið að ákveða þetta en aðrir en það byggir allt á persónulegu mati, við skulum ekki fara neitt í felur með það.

Nú skiptir miklu máli, frú forseti, að hafa í huga að það voru stjórnarflokkarnir ásamt einhverjum öðrum aðilum, sem ég man ekki nákvæmlega hverjir voru, sem fóru yfir þær breytingar sem hér er verið að gera. Stjórnarandstaðan hafði enga aðkomu að því máli, henni var algjörlega haldið fyrir utan þá vinnu. Það er ljóst að það er heimilt samkvæmt lögunum, það er ekki verið að brjóta nein lög með því að hleypa stjórnarandstöðunni ekki að. En úr því að farin var sú leið að fikta í tillögum verkefnisstjórnarinnar — ef einhverjar hugmyndir hefðu verið uppi hjá stjórnarflokkunum um að ná sátt eða samstöðu hér í þinginu átti vitanlega að kalla stjórnarandstöðuna inn í þetta ferli, inn í þá vinnu sem verið var að vinna hjá ráðherrunum, til þess í það minnsta að menn sæju beint þau rök sem fyrir þessu voru og hlusta þá á rök stjórnarandstöðuflokkanna og jafnvel einstakra þingmanna. Þetta var ekki gert. Þetta var ákvörðun stjórnarflokkanna og jú, það er samkvæmt lögum, en hér er í fyrsta sinn verið að fara með svona tillögu inn í þingið og þar af leiðandi hefði verið mikill bragur á því að leita einhvers konar sátta um þessar breytingar. En eins og í öllum málum sem einhver leið er að skapa ósætti um er sú leið farin að skapa ósætti. Það virðist vera einkenni þessarar ríkisstjórnar að fara fram með hnefann á lofti í hverju einasta máli þar sem það er hægt.

Ég lít svo á að þessi tillaga sé galopin að því leyti til að atvinnuveganefnd, sem fer með málið, þurfi að skoða hvern einasta nýtingarkost og velta því fyrir sér hvort hann sé á réttum stað í þessari flokkun, hvort rök séu fyrir því að færa hann úr biðflokki í nýtingarflokk, úr verndarflokki í biðflokk, úr nýtingarflokki í biðflokk eða öfugt, það þarf að skoða þetta allt. Vitanlega hefði það verið mikill kostur ef tillaga verkefnisstjórnarinnar hefði bara farið til nefndarinnar. Þá hefðu menn getað sagt: Ja, það verður þá að rökstyðja það að þetta sé sú faglega vinna sem hefði verið unnin og því ætti hún að eiga sér meira líf fram undan en sú tillaga sem stjórnarflokkarnir leggja fram.

Hæstv. starfandi iðnaðarráðherra orðaði það einhvern veginn svona hér áðan: Við ráðherrarnir treystum okkur ekki til að líta fram hjá ákveðnum athugasemdum. Ég verð nú að viðurkenna að ég treysti mér ekki til að líta fram hjá athugasemdum sem lúta að því að nýta orku, t.d. norður í landi eða austur á fjörðum eða hvar sem það er, ef sú orkunýting yrði til þess fallin að efla þau samfélög sem þar eru. Ég bara verð að segja það, mér finnst það bara býsna góð rök fyrir því að breyta þeirri tillögu sem hér er lögð fram.

Ég verð að segja, frú forseti, af því að ég tel mig þekkja býsna vel til þriggja virkjunarkosta hér — ég ætla reyndar að segja tveggja því að hluta til er um sama svæðið að ræða — að að mínu viti er það með ólíkindum að Villinganesvirkjun í Skagafirði og Skatastaðavirkjunin skuli vera í biðflokki. Ég skal reyna að kaupa það að það eigi eftir að fara í einhverjar rannsóknir varðandi Skatastaðavirkjun en hitt get ég bara engan veginn fallist á. Það er hins vegar umhugsunarvert hvað í raun liggur þar að baki. Ég geri mér alveg grein fyrir því að stjórnmálaflokkurinn Vinstri græn hafa um áraraðir barist gegn þeim virkjunum og eflaust kann það að hafa ráðið einhverju um för.

Ég vildi segja þetta hér af því að það skiptir miklu máli fyrir allt Norðurland að þessar virkjanir verði að veruleika sem allra fyrst. Við sem höfum farið um það svæði sem um ræðir, til að sjá hvað það er sem til dæmis fer undir uppistöðulón fyrir Skatastaðavirkjun, sjá hvaða hugmyndir Landsvirkjun hefur um þá framkvæmd — það er bara, frú forseti, algjörlega óskiljanlegt að þessi kostur skuli ekki vera nýttur.

Ég vil líka leyfa mér að taka undir þá gagnrýni sem kom fram hjá Tryggva Þór Herbertssyni. Ef það er þannig að orðið hafi breyting milli faghópa og könnunarinnar og önnur breyting milli könnunar og ráðherranna er vitanlega að einhverju leyti búið að taka alvöruna úr þessu, ég verð bara að segja eins og er. Ég á reyndar eftir sjálfur að setjast yfir þetta og sjá hvernig þetta lítur nákvæmlega út.

Ég skildi svör hæstv. starfandi iðnaðarráðherra hér áðan líka á þann veg að eftir að ráðherrarnir hefðu ákveðið að gera þessar breytingar hafi þær ekki verið sendar út til umsagnar. Ég vona að ráðherra leiðrétti það þá í ræðu sinni í lok þessarar umræðu ef það er misskilningur hjá mér. Ég fæ ekki séð af þeim bráðabirgðaákvæðum sem vitnað var til að það heimili að því sé sleppt að senda þetta til umsagnar. Ég er nú búin að lesa þessi bráðabirgðaákvæði einum þrisvar til fjórum sinnum og ég næ því ekki alveg ef það er rökstuðningur fyrir því að í bráðabirgðaákvæðinu sé heimild til þess að senda þetta ekki til umsagnar. En stoppum ekki lengur við það, ég er búinn að koma því hér á framfæri.

Í þingsályktunartillögunni er það líka sérstaklega tekið fram að nú eigi að auka starfsemi Umhverfisstofnunar á verksviði friðlýsinga og styrkja það. Ég hugsa að fáar stofnanir hafi einmitt vaxið jafnmikið á þessu kjörtímabili og Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun — og líklega Matvælastofnun, ég veit það reyndar ekki alveg en mér þykir það líklegt, en í það minnsta hinar tvær. Mér finnst mikið í lagt að lýsa því yfir í tillögu að nú eigi að ráðast í að auka fjárútlát og ráða fimm starfsmenn, ef ég skil þetta rétt, til að hafa umsjón með friðlýstum svæðum o.s.frv. Verið er að tryggja að hægt sé að setja aukna fjármuni í þessa stofnun í stað þess að mæta því með þeim fjármunum sem til eru í dag ef fara þarf í að breyta skipulagi innan stofnunarinnar til að gæta að þessum málum. Ég skil þetta þannig að auka eigi við.

Ég næ heldur ekki alveg utan um og kaupi ekki þær breytingar sem verið er að boða hér varðandi Vatnajökulsþjóðgarð en ég verð að (Forseti hringir.) koma inn á það síðar, tíminn er liðinn.