140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann tók undir það sjónarmið sem ég setti fram í ræðu minni hér fyrir helgi sem snýr að þeirri vinnu sem stendur yfir núna í sambandi við þessa þingsályktunartillögu um rammaáætlunina. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði átt að skila henni beint inn til þingsins. Þegar sá faghópur og sú faglega og mikla vinna sem var unnin af honum og birt í formi rammaáætlunar var kláruð hefði nefnilega átt að skila þingsályktunartillögunni inn til þingsins og síðan að vinna hana í gegnum atvinnuveganefnd eins og hv. þingmaður kom inn á.

Hv. þingmaður átti líka sæti í þingmannanefndinni sem flutti hér þingsályktunartillögu sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, þ.e. 63, sem er sennilega eina tillagan sem hefur verið samþykkt svo afgerandi. Samkvæmt henni átti einmitt að styrkja stöðu þingsins, breyta vinnubrögðum og reyna að færa þau til betri vegar. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort það sé ekki alveg örugglega rétt skilið hjá mér, sem hann kom inn á í sinni ræðu, að hann sé þeirrar skoðunar að það hefði átt að skila einmitt þessari rammaáætlun beint til þingsins og fara síðan með hana frá þinginu, þ.e. frá atvinnuveganefnd, í þetta umsagnarferli og síðan hefði hugsanlega átt að gera breytingar, sem ég tel ekki æskilegt að gera, að það hefði þá komið í gegnum atvinnuveganefnd en ekki svona.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um skoðun hans á því hvort hv. atvinnuveganefnd þurfi ekki að senda til umsagnar að minnsta kosti breytingarnar sem eru gerðar í meðförum ríkisstjórnarinnar áður en hún afgreiðir málið frá sér til síðari umr.