140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:41]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun örugglega ekki ná að svara öllum þeim fyrirspurnum sem hv. þingmaður beindi til mín. Í tiltölulega nýlegu hefti National Geographic er fjallað um þúsund vatnsaflsstíflur í Ameríku sem verið er að taka niður, þar sem ár sem hafa verið stíflaðar á síðustu 100 árum. Í sumum tilfellum hafa þær verið virkjaðar og jafnvel er um að ræða mjög léttar virkjanir. Verið er að endurheimta á þessum svæðum gamlar ár sem hafa verið þurrkaðar upp og bæta þann skaða sem lífríkið hefur orðið fyrir. Í þessu sama tölublaði eru talin upp þau lönd sem enn eru að stífla ár til að búa til raforku. Það er hópur landa sem er í mun verri efnahagslegri stöðu en Ísland þannig að ég er á þeirri skoðun að vatnsaflsvirkjanir á borð við þær sem hér hafa verið notaðar heyri bráðum sögunni til og er mjög skeptískur á notkun þeirra.

Þar með er ekki heldur sagt að ég sé talsmaður þess að settar séu niður jarðvarmavirkjanir hér og þar. Hér þarf bara að skoða hvert dæmi fyrir sig og fara vandlega yfir það. Vandamálið við þá rannsókn sem liggur til grundvallar fiskgengd í Þjórsánni er það að aðeins einn aðili hefur rannsakað ána. Þess vegna er mjög þarft og nauðsynlegt að fá fleiri álit þar inn. Þær upplýsingar sem þar er byggt á koma frá þeim samtökum sem hafa beitt sér fyrir verndun laxastofnsins í Norður-Atlantshafi.