140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við 2. umr. um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn lagði ég fram nokkrar breytingartillögur og dró þær síðan til baka til 3. umr. í þeirri von að hægt væri að koma að einhverju leyti til móts við breytingartillögur mínar á milli 2. og 3. umr. Því miður náðist ekki samstaða um það þótt að mörgu leyti eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar, sérstaklega hvað varðar 2. breytingartillögu hjá mér, megi segja að við séum svo sem öll sammála innan nefndarinnar um mikilvægi þess að settar verði skýrar reglur um hagsmunatengsl heilbrigðisstarfsmanna. Meiri hluti velferðarnefndar taldi ekki tímabært í augnablikinu að Alþingi mundi samþykkja hvernig ætti að halda utan um þessi hagsmunatengsl. Ég taldi hins vegar brýnt að leggja fram þá aðferðafræði og þá tillögu sem ég hafði mótað varðandi það hvernig hægt væri að standa að hagsmunaskráningu og vil aðeins ræða þá hugmynd hér. Hún byggist á tiltölulega nýsamþykktri heilbrigðislöggjöf í Bandaríkjunum, mjög viðamikilli löggjöf þar sem reynt var að tryggja sem flestum heilbrigðistryggingu í Bandaríkjunum. Þar voru líka settar ákveðnar reglur um skráningu á tengslum við lyfjaframleiðendur. Í tillögunni er sú löggjöf höfð til hliðsjónar.

Mín tillaga er þannig að á eftir 25. gr. laganna komi ný grein, ásamt fyrirsögn, sem verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hagsmunaskráning.

Landlæknir skal halda skrá yfir hagsmunatengsl heilbrigðisstarfsmanna.

Heilbrigðisstarfsmaður skal tilkynna landlækni um tengsl við framleiðendur, dreifingaraðila eða heildsala lyfja og lækningatækja eigi hann verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta hjá viðkomandi. Einnig skal hann tilkynna landlækni ef hann er eigandi að svo stórum hlut slíks aðila að hann eigi þar verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta.

Framleiðendur, dreifingaraðilar og heildsalar lyfja og lækningatækja sem njóta greiðsluþátttöku ríkisins skulu tilkynna landlækni árlega um greiðslur eða hlunnindi sem einstakir heilbrigðisstarfsmenn, hagsmunasamtök þeirra eða heilbrigðisstofnanir njóta frá þeim, að fjárhæð 1.500 kr. eða meira.

Nánar skal kveðið á um hagsmunaskráningu, m.a. um skráningu, aðgengi að skránni, tengsl og mat á verulegum fjárhagslegum hagsmunum í reglugerð“ sem ráðherra mundi þá setja.

Þó að maður finni fyrir ákveðnum samhug um nauðsyn þess að setja skýrari reglur hvað varðar þessa hagsmunaskráningu finnst mér skorta á að velferðarnefnd setji einhvers konar ramma fyrir velferðarráðuneytið upp á það hvernig það eigi að skoða ítarlega, eins og hér er talað um, „setningu reglna sem miði að því að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra eða hið minnsta að upplýsa um mögulega hagsmunaárekstra til að sjúklingar geti tekið afstöðu til slíkra upplýsinga“.

Ég legg þessa tillögu fram í þeirri von að þingmenn taki jákvætt í hana. Ef svo verður ekki verður vonandi hægt að hafa hana til hliðsjónar í þeirri vinnu sem fer þá fram innan velferðarráðuneytisins. Treysti ég á að meiri hluti velferðarnefndar fylgi þessu máli mjög vel eftir gagnvart velferðarráðherra.

Ég legg einnig til að í staðinn fyrir að heilbrigðisstarfsmanni verði óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir 70 ára aldur verði samræmi á milli þessara laga sem hér stendur til að samþykkja um heilbrigðisstarfsmenn og lyfjalaga, að í stað orðanna „framlengja leyfi til tveggja ára í senn, þó aldrei oftar en þrisvar“, þ.e. að 70 ára aldri, komi að landlæknir hafi þá heimild til að framlengja leyfi um eitt ár í senn. Þá fari að sjálfsögðu fram ákveðið mat hjá landlækni um það hvort rétt sé að framlengja þetta leyfi.

Við 1. umr. málsins benti hv. þm. Siv Friðleifsdóttir á að til dæmis gæti þetta verið bagalegt hvað varðar geðlækna, í rauninni bendi ekkert beint til annars en að þeir eigi að geta starfað lengur en til 70 ára aldurs að því gefnu að þeir haldi heilsu og viðhaldi þekkingu sinni. Það væri náttúrlega hlutverk landlæknis að meta það. Þótt meiri hluti velferðarnefndar taki fram að þessi nýja rammalöggjöf gangi lengra en lyfjalögin tel ég samt eðlilegra að það sé samræmi á milli þess hvernig við stöndum að þessu. Þess vegna legg ég þetta til.

Síðan er líka lagt hér til að ekki bara læknanemar geti fengið undanþágu til að gegna störfum heldur einnig að þeir sem hafa lokið fjórða árs námi í lyfjafræði við Háskóla Íslands eða sambærilegu námi við annan háskóla geti fengið tímabundið starfsleyfi til að gegna störfum lyfjafræðings. Í slíkum tilvikum ætti lyfjafræðinemi að starfa með og á ábyrgð lyfjafræðings.

Ég taldi nauðsynlegt að það væri svona undanþáguákvæði hvað varðar lyfjafræðinga. Það hafa komið upp tilvik úti á landi í mínu kjördæmi að það hefur verið verulega erfitt að manna stöðu lyfjafræðings. Það er að verða heilmikil tækniþróun eins og bent var á sem gæti gert það að verkum að hugsanlega mætti veita nemum í lyfjafræði sem hafa lokið fjórða árs námi, eru nánast búnir með sitt nám, leyfi til að starfa þar, þá með og á ábyrgð lyfjafræðings þó að þeir væru þá hvor á sinni starfsstöðinni. Þessi tillaga hlaut ekki heldur neinar undirtektir.

Ég ætla aðeins að fá að ræða líka breytingartillögu frá hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur þar sem lagt er til að læknir beri ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita eða hann hefur umsjón með. Aðrir heilbrigðisstarfsmenn beri, eftir því sem við á, ábyrgð á greiningu og meðferð sjúklinga sem til þeirra leita.

Þessi athugasemd kom frá læknum. Við erum ekki að fjalla um þetta mál í fyrsta skipti á Alþingi, eins og kom fram, en það kemur greinilega fram í þeim umsögnum sem við fengum frá læknum og hjúkrunarfræðingum að það er ákveðin óvissa, ákveðið óöryggi sem tengist því að núna sé verið að setja rammalöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn í staðinn fyrir að hafa sérlög eins og hafa verið hingað til. Menn höfðu, sérstaklega hvað varðar lækna, áhyggjur af þessu atriði. Hins vegar held ég að við getum líka horft til reynslu nágrannaþjóða okkar í þessu efni. Þar hafa verið gerðar sambærilegar breytingar eins og hér er verið að leggja til, að það sé ekki skilgreint sérstaklega hver beri ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu. Það hefur gefið ágætisraun miðað við það sem ég kynnti mér þannig að ég tel þetta ekki lykilatriði varðandi það að starfsmaður muni að sjálfsögðu áfram bera ábyrgð á störfum sínum þó að það sé ekki læknir sem ber fyrst og fremst ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita.

Þetta er það sem ég vildi fá að nefna sérstaklega um þetta frumvarp. Ég þakka fyrir samstarfið í nefndinni. Þótt þessi fjöldi breytingartillagna liggi fyrir held ég að ég geti samt sagt að það hafi verið þokkaleg samstaða um málið í nefndinni, enda sjáum við að það er komið hér til 3. umr.