140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er svo að stundum líður manni eins og maður sé í „deijavú“, það sé alltaf sami dagurinn aftur og aftur. Og nú eru komin þrjú ár af þessu. Mér finnst ekkert undarlegt, frú forseti, að hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir skuli beina þessari sömu fyrirspurn til forseta dag eftir dag, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir undrar sig á, vegna þess að það hafa ekki komið svör. Það er bara eðlilegt að spyrja þangað til maður fær einhver svör.

Hv. þingmaður talaði um að í þinginu væru allir í stríði. Samfélagið væri allt í stríði, hver við annan. En væri þá ekki ráð að þeir sem halda um stjórnartaumana taki þessar athugasemdir hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur til sín og reyni að gera sitt í því að hindra það stríð, stoppa það, reyna að sýna einhvern sáttavilja, taka upp samræðu við hagsmunaaðila og alla þá fjölmörgu sem starfa til dæmis í sjávarútvegi og hafa gert miklar athugasemdir við þá miklu sátt vinstri manna sem þeir eru að reyna að troða í gegnum þingið?

Og varðandi það að stjórnarandstaðan sé að tefja öll mál, ég veit ekki betur en þessi mál séu (Forseti hringir.) föst í nefnd af því að stjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um hvernig eigi að afgreiða þau.