140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í gær var sjómannadagurinn og ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að heimsækja Vestmannaeyjar og hitti þar fjölmarga sem voru að fagna þeim mikla hátíðardegi, sjómenn, fiskverkafólk, útgerðarmenn og almenna borgara sem búa í Eyjum og voru gestir í Eyjum. Ég gat ekki orðið vör við annað en að hugur flestallra ef ekki allra sem ég hitti væri bundinn við þá miklu óvissu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa komið á í samfélaginu í tengslum við þá kollvörpun á íslenska sjávarútvegskerfinu sem nú er boðuð.

Hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa farið hér mikinn og sagt að þetta sé allt saman gert með almannahag í huga og almannahagsmunir krefjist þess að þessu öllu saman verði kollvarpað. Hefur hv. þingmaður fundið þess stað í þeirri umræðu sem hefur verið hér í þinginu að þetta sé rétt, að almannahagsmunir krefjist þess að kerfinu sé breytt? Ég held því fram, eins og ég held að hv. þingmaður hafi í örstuttu máli reynt að koma inn á í ræðu sinni, að hagsmunir almennings í landinu séu einmitt þeir að hér séu stöndug sjávarútvegsfyrirtæki sem skili arði, sem nýti arð sinn í fjárfestingar og hagræði í greininni eftir því sem kostur er, því að þá erum við öll hér, allur almenningur í landinu, að upplifa það að auknar gjaldeyristekjur komi inn í landið. Þar af leiðandi verður hagur okkar allra betri.

Þannig upplifi ég þetta og spurningarinnar virði af því að ég tel að ekki sé verið að gæta almannahags í þessum tillöguflutningi ríkisstjórnarflokkanna heldur einhverra — einhver gæti sagt sérhagsmuna valinna hópa sem óska eftir því að komast inn í kerfið, maður getur eiginlega ekki skilið þetta öðruvísi. Er hv. þingmaður með einhverja aðra skoðun á þessu efni varðandi almannahagsmunina?