140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þau atriði sem hv. þingmaður taldi upp varðandi almannahagsmuni um að það sé öryggi og festa í greininni og að byggðirnar geti blómstrað eru allt hlutir sem ég get tekið undir. Í ljósi þessara mála sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, í ljósi þeirra umsagna sem þær hugmyndir hafa fengið hjá aðilum í greininni, sama hvaða stétt það er, frá sérfræðingum, er ljóst að þessi mál setja greinina í algjöra óvissu. Störfum í sjávarútvegi mun fækka, það er ljóst. Fjárfestingarnar munu ekki skila sér, hagræðingin mun fara veg allrar veraldar verði þessi áform ríkisstjórnarinnar að veruleika.

Ég spyr því aftur: Hvernig er hægt að halda því fram að hér sé verið að leggja fram mál til að stuðla að því að almannahagsmunum verði betur borgið en í því kerfi sem við höfum núna?