140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get fallist á að það er sanngjarnt að taka tillit til þess í röðun á samgönguáætlun að veggjöld verða innheimt. Ég sagði það áðan en ég vil hins vegar ekki kippa þessu fullkomlega úr samhengi við annað sem er að gerast í samgöngumálum í landinu.

Ég bendi á að um er að ræða mikla ríkisábyrgð. Ég held að það sé líka óumdeilt að tekjurnar sem koma á móti munu skila sér hægt. Fjármálaleg áhætta ríkisins af verkefninu er töluverð og háð mörgum óvissuþáttum eins og hv. þingmaður þekkir enda situr hann í fjárlaganefnd.

Ég verð að segja, burt séð frá öðrum samgönguframkvæmdum, að við eigum ekki að ráðast í verkefni af þessu tagi nema við séum á sæmilega tryggum grunni varðandi þær ákvarðanir sem við tökum. Þetta mál er það því miður ekki.

Ég væri til dæmis þakklátur ef hv. þingmaður vildi útskýra það í ræðu á eftir hvers vegna hann kemst að öðrum niðurstöðum en Ríkisábyrgðasjóður gerir til dæmis í vandaðri greinargerð sem fylgir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar.