140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef við lítum aðeins til sögunnar og umræðunnar um Vaðlaheiðargöng var það ekkert óeðlilegt árið 2009, þegar menn sáu fram á að fara þyrfti af stað með ýmsar framkvæmdir, að menn litu meðal annars til Vaðlaheiðarganga. Þá skilaði áliti sínu þáverandi samgöngunefnd sem nú er búið að breyta yfir í umhverfis- og samgöngunefnd og lýsti yfir stuðningi nefndarinnar við að fara þessa leið en á þeirri forsendu að engin ábyrgð mundi falla á ríkið.

Í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Nefndin áréttar hér þennan skilning sinn“ — þ.e. að engin bein ábyrgð verði felld á ríkissjóð — „og tekur fram að hann er veruleg forsenda fyrir því áliti hennar sem hér er sett fram.“

Síðan 2009 hafa þessar forsendur náttúrlega breyst. Ég held ekki síst að þau vegi þungt, þau sjónarmið sem við sem erum með efasemdir um þessa leið Vaðlaheiðarganga meðal framkvæmda ríkisins höfum lagt þar fram. Við höfum meðal annars sýnt fram á og bent á álit Ríkisábyrgðasjóðs og við hljótum að staldra við og fara yfir þær vísbendingar sem ég hef talað um að séu fleiri en færri. Okkur ber að fara varlega.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að við megum ekki tala verkefnið niður, við verðum líka að vara okkur á því. Ég undirstrika að mér finnst þetta mikilvægt verkefni en við verðum líka að þora að tala um það í samhengi við aðrar framkvæmdir. Ég á mjög erfitt með að taka Vaðlaheiðargöngin á vafasömum forsendum fram yfir önnur jarðgöng sem ég tel afar brýn, eins og Norðfjarðargöng sem ég nefndi áðan eða Vestfjarðagöngin. Þau göng eru mjög brýn fyrir þau einangruðu samfélög á því svæði.

Ég held að þau sjónarmið (Forseti hringir.) sem lágu til grundvallar áliti (Forseti hringir.) samgöngunefndar árið 2009 hafi breyst verulega.