140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:36]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef tjáð mig allmikið um þetta Vaðlaheiðargangamál. Það sem gerðist við 2. umr. var að þegar forstöðumaður lánamála ríkissjóðs í Seðlabankanum sá hvert stefndi með málið og hvert fjárlaganefnd ætlaði með það, þrátt fyrir að Ríkisábyrgðasjóður væri búinn að skrifa mjög ítarlega og gagnrýna skýrslu á lánveitinguna, steig sá embættismaður fram opinberlega og gagnrýndi málið á opinberum vettvangi. Það er mjög fátítt að embættismenn og forstöðumenn stofnana geri slíkt.

Hann gerir það vissulega út af því að Ríkisábyrgðasjóður á að tjá sig um þessi mál og Ríkisábyrgðasjóður hefur haft rétt fyrir sér í flestum tilfellum þar sem þeir hafa varað við ríkisábyrgðum á lán. Engu að síður eru lög um ríkisábyrgðir tekin úr sambandi við þessa lánveitingu. Finnst hv. þm. Birni Val Gíslasyni, varaformanni fjárlaganefndar, það eðlileg vinnubrögð? Mun hann styðja slík vinnubrögð í framtíðinni við afgreiðslu fjármála ríkisins, að lög séu bara tekin úr sambandi eftir „behag“ til þess að koma í gegn málum sem hugnast einstökum ráðherrum eða þingmönnum þrátt fyrir aðvörunarorð eftirlitsstofnana þingsins og ríkisvaldsins? Finnst hv. þingmanni það vera eðlileg vinnubrögð? Það er gert í dag, það hefur verið gert áður. Mun hann beita sér fyrir því að það verið gert í framhaldinu?