140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:31]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisverð pæling. Þegar samgönguáætlanir koma til umræðu, vonandi í dag eða á morgun eða í júlí ef næst ekki samkomulag um lok þingsins, hlýtur að verða einboðið að maður velti upp þeim hugmyndum að fara í brýnar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eftir þessari leið. Framkvæmdar á þessu svæði hafa einatt fengið í sinn hlut mikinn minni hluta vegafjár úr ríkissjóði þó vissulega séu flestar framkvæmdir úti á landi brýnni umferðaröryggisins vegna en margar á höfuðborgarsvæðinu. Nú eru þingmenn kjördæmisins og fjárlaganefnd búnir að opna á leið til þess að fara út í samgöngubætur sem ríkissjóður mun að öðrum kosti ekki hafa efni á að fara út í á næstu árum. Ríkissjóður getur einfaldlega tekið lán á þessum sömu forsendum en með miklu meiri líkum á að þar sé um að ræða arðbærar framkvæmdir með veggjöldum þar sem tugþúsundir bíla keyra um Miklubrautina á hverjum einasta degi. Einhver hluti umferðarinnar mun ef til vill fara um Sæbraut í stað þess að fara í gegnum stokk á Miklubrautinni, en engu að síður yrðu framkvæmdir á þessu svæði með slíkri aðferð miklu arðbærari en nokkur einustu jarðgöng nokkurn tímann hvar sem er annars staðar á landinu.

Mig langar að hvetja hv. þm. Mörð Árnason að brydda upp á þessu máli í umræðu um samgönguáætlanir og á vettvangi umhverfis- og samgöngunefndar í framtíðinni, því samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru einnig brýnar þó að öryggisins vegna liggi kannski ekki eins mikið á þeim.