141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

barnaverndarlög.

65. mál
[15:49]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 80/2011, um breytingu á barnaverndarlögum. Í fyrra var samþykkt breyting á barnaverndarlögunum með lögum nr. 80/2011 þar sem ákveðið var að ríkið yfirtæki ábyrgð á að byggja upp og reka öll heimili og stofnanir fyrir börn en sveitarfélögin bera ábyrgð á öðrum úrræðum í nærumhverfi barns. Samkvæmt lögunum skyldi þessi breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga taka gildi 1. janúar 2013. Í raun er Reykjavíkurborg eina sveitarfélagið sem rekur heimili fyrir börn eins og hér um ræðir þannig að við núverandi aðstæður ná lög nr. 80/2011 eingöngu til tilfærslu heimila fyrir börn frá Reykjavíkurborg til ríkisins.

Eins og fram kemur í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins frá í fyrra vegna lagabreytingarinnar um þessa breyttu verkaskiptingu er áætlað að útgjöld sem nema á bilinu 262–312 millj. kr. færist frá sveitarfélögum til ríkisins og að þeim verði mætt að fullu með gjaldi sem sveitarfélögin greiði þegar þau senda börn í vistun á þeim stofnunum sem ríkið yfirtekur. Er þá jafnframt gert ráð fyrir að velferðarráðuneytið setji reglugerð um gjaldskrá vegna innheimtu þessara gjalda.

Starfshópur á vegum velferðarráðuneytisins, Barnaverndarstofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar hefur að undanförnu unnið að undirbúningi þessarar breytingar og meðal annars fjallað um rekstur þeirra stofnana sem nú eru á vegum Reykjavíkurborgar og færast eiga til ríkisins. Þann 14. maí sl. barst starfshópnum bréf frá Reykjavíkurborg þar sem bent er á að við undirbúning frumvarpsins sem varð að lögum nr. 80/2011 hafi ætíð verið gengið út frá því að til kæmi viðbótarfjármagn frá ríkinu til uppbyggingar á úrræðum þannig að Reykjavíkurborg þyrfti ekki að skerða þá þjónustu sem nú er veitt á þeim heimilum og stofnunum fyrir börn sem borgin rekur. Þannig telji Reykjavíkurborg forsendubrest fyrir því að færa heimilin frá borginni þar sem ekki liggi fyrir nein fyrirheit um aukið fjármagn frá ríkinu. Með öðrum orðum er verið að gagnrýna að ef ekki verði bætt við nýjum heimilum sé verið að hleypa öðrum sveitarfélögum með sín börn inn á þessi heimili sem eru í Reykjavíkurborg. Einhver dæmi eru um það en þarna virðist það formgert sérstaklega. Þess vegna kemur athugasemd frá Reykjavíkurborg um að hún vilji ekki skerða sína þjónustu og telji ekki ástæðu til að fara yfir þetta nema það komi uppbygging á nýjum heimilum.

Starfshópurinn hefur einnig fengið bókun frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsetta 25. maí 2012 þar sem tekið er undir afstöðu Reykjavíkurborgar. Telur stjórnin skynsamlegast að fresta gildistöku umræddrar breytingar um eitt til tvö ár og að á þeim tíma verði unnið betur að undirbúningi málsins. Starfshópurinn hefur fallist á sjónarmið Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að lengri tími sé nauðsynlegur til að breyta umræddri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og að hæfilegur frestur sé til 1. janúar 2014.

Í ljósi þessa mæli ég fyrir þessu frumvarpi um frestun á gildistöku laganna til 1. janúar 2014 og að lokinni umræðunni legg ég til að málinu verði vísað til meðferðar hv. velferðarnefndar.